Villisveppa- og kryddjurtasósa

Þurrkaðir kóngssveppir eða aðrir villisveppir gefa mjög gott bragð í þessa ljúffengu sósu, sem hentar sérlega vel með steiktu lambakjöti, til dæmis lambalæri eða hrygg á veisluborðinu.

Pottur og diskur

Hráefni

 15 g þurrkaðir kóngssveppir eða aðrir villisveppir
 vatn eftir þörfum
 2 msk. smjör eða olía
 1 laukur
 1 gulrót
 1 sellerístöngull
 2 lárviðarlauf
 1 msk. blóðbergsteblanda eða önnur villijurtablanda
 nýmalaður pipar
 1 dl þurrt hvítvín eða rauðvín
 steikarsoð úr ofnskúffunni
 1 msk. villibráðarkraftur (Oscar)
 salt
 sósjujafnari

Leiðbeiningar

1

Setjið sveppina í skál, hellið yfir þá u.þ.b. 2 dl af sjóðheitu vatni og látið standa. Setjið smjör eða olíu í pott. Skerið laukinn í bita (óþarfi að afhýða hann) og gulrótina og selleríið einnig. Setjið í pottinn og látið krauma í nokkrar mínútur við meðalhita. Bætið lárviðarlaufum, kryddjurtum og pipar út í og hellið svo víninu yfir og látið sjóða rösklega þar til nær enginn vökvi er eftir. Hellið þá u.þ.b. 8 dl af vatni í pottinn, hitið að suðu og látið sjóða án loks í um hálftíma. Síið þá soðið og setjið það aftur í pottinn. Bætið sveppunum og vatninu af þeim út í ásamt steikarsoði, villibráðarkrafti og dálitlu salti. Látið sjóða í nokkrar mínútur. Smakkið og bætið við meiri pipar og salti ef þarf. Þykkið að lokum sósuna með sósujafnara.

Deila uppskrift