Íslenskt lambakjöt er fyrsta íslenska matvaran sem hefur fengið PDO-merkingu

Fyrsta íslenska PDO-afurðin

Íslenskt lambakjöt er fyrsta og eina íslenska matvaran sem hefur fengið PDO-merkingu, Protected Designation of Origin, sem er hæsta stig verndaðra upprunaheita í Evrópu.
PDO er ein þekktasta viðurkenningin fyrir vernduð upprunaheiti á Evrópumarkaði. Margar af þekktustu og eftirsóttustu gæðavörum í heimi skarta þessu merki, s.s. hið eina sanna franska kampavín, gríski feta-osturinn, parmaskinkan, parmesan og svo mætti lengi telja.
Merkið er þekkt um alla Evrópu og er aðeins veitt afurðum sem uppfylla mjög ströng skilyrði um einstaka, staðbundna framleiðsluhætti og notkun hráefna úr nærumhverfinu.

Protected Designation of Origin. PDO

Upprunamerki Íslensks lambakjöts

Upprunamerki Íslensks lambakjöts stendur fyrir tryggan uppruna og úrvinnslu afurða, framleiðendum og neytendum til heilla. Það hefur sannað gildi sitt á fyrstu árum starfseminnar, enda byggir það á reynslu sannreyndra fordæma erlendis frá.
Merkið er staðfesting til neytenda á því að lambakjötið sem boðið er upp á sé sannarlega íslenskt, hvort sem það er á neytendaubúðum, matseðlum eða sýnilegt með öðrum hætti á veitingastöðum.