Fituhreinsun

Varast skal að fituhreinsa um of. Fita gefur einstakt bragð í hóflegu magni og oft á tíðum tengjum við minningar við lambafitubragð. Kjötbita er hægt að fituhreinsa eins og þurfa þykir, en síðan er hægt að safna henni saman og brúna hana með kjötbitanum og ausa fitunni yfir kjötbitann til að gefa honum meira bragð.

Það er umdeilt hvort fjarlægja eigi fituna af lambakjötinu áður en það er sett á grillið og þar togast á ýmis sjónarmið.  Þegar fitan bráðnar og lekur niður í kolin eða á brennarana gjósa upp logar sem getur valdið því að kjötið brennur illa. En á hinn bóginn er það fitan sem gefur bragð og ilm.

Sumir lambakjötsbitar eru feitari en aðrir. Á kótilettum er t.d. nokkuð þykk fiturönd og það getur verið mjög gott að snyrta hana áður en kjötið fer á grillið.

Engin ástæða er hins vegar til að fituhreinsa lambalæri, nema að gott getur verið að skera burt mjög þykka fitu, utan af læri.