Íslenskt lambakjöt

Sérstaða íslenska lambakjötsins er sú að féð gengur frjálst í haga mun lengur en þekkist í löndunum í kringum okkur, og þar ferðast það óhindrað um fjöll og dali. Fæðuval lambsins er einnig mjög fjölbreytt sem veldur því að margvíslegt bragð smitast út í kjötið, en oft má finna angan af hvönn, berjum eða lyngi sem lambinu hefur verið beitt á. Þá er þess einnig að geta að notkun á sýklalyfjum, vaxtarhormónum eða erfðabreytingum hefur ekki viðgengist í lambakjötsframleiðslu á Íslandi. Loks má nefna að hreina vatnið hér á landi er grunnurinn að þessu öllu saman

HVAÐ GERIR ÍSLENSKT LAMBAKJÖT EINSTAKT?

Sérstaða íslenska lambakjötsins og sauðfjárræktarinnar er óumdeild, en mikilvægt er að vernda þá sérstöðu og upphefja. Íslenskt lambakjöt er fyrsta og eina íslenska matvaran sem hlotið hefur viðurkenningu sem verndað afurðarheiti sem vísar til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu. En hver er þessi sérstaða íslenska lambakjötsins?

Við erum stolt að geta sagt frá því að sauðfjárrækt hafi verið stunduð í landinu frá upphafi Íslandsbyggðar og að sauðkindin hafi haldið í okkur lífinu í gegnum aldirnar. Sauðfjárbúskapur á Íslandi hófst með komu landnámsmannanna og hefur alíslenska sauðfjárkynið haldist hreinræktað allar götur síðan. Kjötið sjálft er engu líkt og einstakt á heimsmælikvarða. Þar spila saman aldalöng ræktunaraðferð íslenskra bænda og óspillt íslensk náttúra. Lömbin gæða sér á ilmandi réttum af veisluborðinu sem finna má upp til fjalla: safaríku grænu grasi, kraftmiklu og ilmandi lyngi og berjum, auk villtra kryddjurta á borð við rauðsmára, blóðberg, stör, víði, gullintoppa og hvönn. Íslenska lambakjötið einkennist þar af leiðandi af ljúffengu bragði og meyrni, enda hefur íslenska sauðkindin ljómandi góðan smekk. Hún velur ávallt það besta, leitar uppi nýgræðinginn, ferskustu jurtirnar, hreinasta vatnið og færir sig ofar og ofar í fjöllin eftir því sem líður á sumarið, allt þar til henni er smalað á haustin. Í dag vinna bændur ötullega að jafnvægi milli beitar og náttúruverndar en þeir taka hlutverk sitt sem vörslumenn landsins mjög alvarlega.

Íslenskum sauðfjárbændum er mjög umhugað um velferð dýranna. Sauðburður að vori markar upphaf þess tímabils sem leggur grunninn að afkomu bændanna. Hvert lamb fær góðar móttökur og fyrstu vikurnar fylgjast bændur náið með og annast hverja einustu kind og lömbin hennar. Þessi umhyggja og stöðugt eftirlit skiptir sköpum fyrir velferð og heilsu dýranna. Ekki má gleyma því að öfugt við sums staðar erlendis er áhersla lögð á heilnæmi kjötsins með takmarkaðri notkun sýklalyfja og banni við notkun hormóna. Notkun erfðabreytts fóðurs er óheimil í sauðfjárrækt, allt kjöt er skoðað af dýralæknum og slátrun og kjötvinnsla er undir ströngu gæðaeftirliti. Íslenskt lambakjöt er ríkt af heilnæmum fitusýrum, til dæmis Omega-3, en rannsóknir sýna að hátt hlutfall heilnæmra fitusýra í kjöti megi rekja til náttúrulegs fóðurs og útibeitar á grasi og jurtum. Kjötið er einnig með há gildi GLA-sýru, járns, B-vítamína og annarra nauðsynlegra steinefna.

Margir þættir hafa áhrif á bragð og gæði lambakjöts, svo sem kyn lambsins, aldur, fóður, slátrun og meðferð eftir slátrun. Íslensk lömb hafa í flestum tilvikum gengið á heiðum, fjöllum eða í úthögum. Segja má að sérstöðu íslenska lambakjötsins megi rekja til þess að það „kryddi sig sjálft“ með vali sínu á fæðu. Íslenskt lambakjöt þykir fremur bragðmilt og meyrt en erlendir ferðamenn verða oft undrandi þegar þeir bragða íslenska lambakjötið og tala um hve bragðgott og milt það sé.

ALDALÖNG SAGA LAMBAKJÖTSINS

Kjöt af kindum og lömbum hefur verið nýtt frá ómunatíð, en framan af var um villifé að ræða. Sauðkindin er talin eitt alfyrsta húsdýr mannsins, en fundist hafa traustar vísbendingar í Írak og Rúmeníu um að menn hafi byrjað að nýta sauðfé fyrir um ellefu þúsund árum. Sauðkindin var upphaflega ræktuð vegna ullar og mjólkur fremur en kjötsins. Hún er þolgóð skepna sem getur lagað sig að fjölbreyttum aðstæðum og því er sauðfé ræktað um víða veröld.

Í dag er lambakjöt borðað víða um heim, sums staðar er það veislumatur sem sjaldan er á boðstólum en annars staðar er það vinsælasta kjötið og nær daglega á borðum almennings. Á það við til dæmis víða á Balkanskaga og í Grikklandi, Tyrklandi, Austurlöndum nær, Norður-Afríku og á Norður-Indlandi. Þar er kjötið annaðhvort hægsteikt, grillað í bitum á teini eða í heilum skrokkum, eða soðið í krydduðum pottréttum. Kjötið er gjarnan kryddað með kóríander, kummin, oregano og ýmsum karríkryddblöndum sem upphefja einkennandi bragð kjötsins. Þrátt fyrir ágæti matarhefðar okkar Íslendinga er einstaklega skemmtilegt að kynnast matarmenningu annara þjóða og má finna úrval spennandi uppskrifta hér á vefsíðunni. Gerum hversdaginn betri með íslensku lambakjöti.