Krydd sem hentar

Hægt er að krydda flesta vöðva á ólíkan hátt. Það er bara misjafnt eftir heimshlutum og réttum hvernig krydd er notað við það. Hér fylgir listi yfir nokkrar kryddtegundir, bæði algengar og sjaldséðar, ásamt yfirliti um hvar þær eru helst notaðar, í hvers konar lambakjötsrétti og hvaða önnur krydd og kryddjurtir passa vel með þeim.

Allrahanda

Ekki er um að ræða brúnkökukryddblönduna sem stundum er kölluð þessu nafni, heldur ber af runna sem vex m.a. á Jamaíku (kallast stundum Jamaíkupipar eða kryddpipar). Heil allrahandaber eru eins og stór piparkorn. Bragðið er eins og blanda af kanil, negul og múskati og þaðan kemur nafnið. Allrahanda er notað til að krydda karabíska grillrétti, t.d. haft í jamaískar jerk-blöndur og kryddmauk.

Fer vel með: chili, kóríanderfræi, engifer, hvítlauk, pipar, timjani, rósmaríni.

Chili

Chili-aldin, chili-fræ og hvers konar chili-pipar og chili-kryddblöndur eru geysimikið notaðar í heitum löndum, meðal annars til að krydda lambakjötsrétti. Margar þessar kryddblöndur innihalda mikið af chili og geta verið mjög sterkar og því er ekki heppilegt að nota mikið af þeim ef lambakjötsbragðið á að koma vel fram.

Fer vel með: flestum kryddtegundum.

Einiber

Marin-einiber þykja einkar góð til að krydda villibráð og þau eiga þess vegna vel við ýmsa norðurevrópska lambakjötsrétti, ekki síst í kryddlegi og sósum með rauðvíni, lárviðarlaufi, hvítlauk og blóðbergi.

Fer vel með: lárviðarlaufi, blóðbergi, rósmaríni, marjoram, hvítlauk, pipar, kúmeni, sellerífræi.

Engifer

Ferskur engifer er einkum notaður í indverska og austurlenska lambkjötsrétti, gjarnan snöggsteikta í wok-pönnu (veltisteiking). Rótin er söxuð smátt eða rifin og stundum er safinn eingöngu notaður í kryddlegi og sósur. Þurrkaður engifer er notaður í marga lambakjötsrétti í Norður-Afríku og Austurlöndum nær, einkum pottrétti og kássur.

Fer vel með: chili (ferskum), sítrónu- og límónusafa, sojasósu, vorlauk, hvítlauk, myntu, túrmerik. Þurrkuðu kryddi: kanil, kardimommum, negul, múskati, papriku, pipar, saffrani.

Fennikufræ

Fræ af fenniku (fennel) eru ekki mikið notuð til að krydda lambakjöt en er þó eitt uppistöðukryddið í kínverskri fimm krydda blöndu og sumum indverskum karríblöndum. Á Indlandi er það líka notað í ýmsar sósur og ídýfur með lambakjöti.

Fer vel með: kummini, fenugreek, pipar, timjani, myntu, steinselju.

Fenugreek

Fræ þessarar plöntu hafa verið notuð sem krydd í þúsundir ára en kryddið er þó ekki vel þekkt á Vesturlöndum. Við austanvert Miðjarðarhaf og á Indlandi er fenugreek aftur á móti algengt, einkum í kryddblöndum, og er notað í marga pottrétti og kássur úr lambakjöti.

Fer vel með: hvítlauk, pipar, kóríander, kummini, fennikufræi, túrmeriki, kardimommum, kanil, negul.

Kardimommur

Ilmríkt en fremur milt krydd, nokkuð bragðfrekt og best í hófi. Best er að nota heilar kardimommur og mala þær rétt fyrir notkun. Kryddið er notað í ýmsa arabíska og indverska lambakjötsrétti, t.d. indverska korma-rétti og margar karríblöndur.

Fer vel með: chili, paprikudufti, pipar, kóríanderfræi, kúmeni, kanil, negul, engifer, kummini.

Kóríanderfræ

Bragðið af kóríanderfræjum er mjög ólíkt bragðinu af blöðunum. Það er sætbeiskt, milt og ilmríkt, minnir svolítið á appelsínubörk. Malaður kóríander er m.a. notaður í norðurafríska og arabíska pottrétti og kássur, kjötbollur og margt annað. Á Indlandi er hann notaður í karríblöndur.

Fer vel með: kummini, chili, allrahanda, negul, kanil, múskati, engifer, fennikufræi, hvítlauk.

Kúmen

Kúmen er ekki mikið notað í lambakjötsrétti en er þó ekki óþekkt. Í Norður-Afríku er það t.d. notað í ýmsar kryddblöndur og í Ungverjalandi stundum í lambagúllas. Það þykir eiga sérstaklega vel við feitt kjöt.

Fer vel með: kóríanderfræi, timjani, steinselju, einiberjum, hvítlauk.

Kummin

Kummini og kúmeni er oft ruglað saman en bragðið er mjög ólíkt. Kummin er ilmríkt og nokkuð bragðfrekt krydd sem er áberandi í norðurafrískri og arabískri matargerð, en einnig á Indlandi og í Mexíkó. Það á mjög vel við í mörgum lambakjötsréttum, bæði pottréttum og grillsteikum. Fræin eru oftast möluð en þó einnig stundum notuð heil.

Fer vel með: kóríanderfræi, chili, paprikudufti, pipar, hvítlauk, timjani, óreganó, lárviðarlaufi, allrahanda, kanil, negul, múskati, fennikufræi, fenugreek, túrmeriki.

Múskat

Ilmríkt krydd með svolitlum kamfórukeim sem er mikið notað á Indlandi og allt til Norður-Afríku, þar sem það er algengt í lambakjötsréttum. Sums staðar í Evrópu er það notað í litlum mæli í ýmsa pottrétti og hérlendis þykir sumum það ómissandi til að krydda kartöflustöppuna með lambakjötinu. Langbest er að kaupa heilar múskathnetur og rífa þær á rifjárni rétt fyrir notkun. Masi (mace, múskathýði) er hýðið af múskathnetunni, oftast selt malað. Það er notað á sama hátt.

Fer vel með: kanil, kardimommum, negul, engifer, pipar, timjani, kóríander, kummini.

Negull

Negulnaglar eða malaður negull er ekki algengt krydd í kjötréttum á Vesturlöndum en í Norður-Afríku, Arabalöndum og á Indlandi er negull algengur í kryddblöndum sem hafðar eru til að krydda lambakjötspottrétti og fleira.

Fer vel með: kanil, allrahanda, múskati, kardimommum, engifer, chili, kóríanderfræi, fennikufræi, lárviðarlaufi.

Paprika

Venjulegt paprikuduft er milt en til eru mjög sterk afbrigði. Papriku má nota í ýmsa pottrétti, sósur og súpur, og einnig til að krydda lambakjöt fyrir steikingu. Þess þarf þó að gæta að paprika verður beisk ef hún brennur og því ætti ekki að nota mikið af henni t.d. á grillkjöt. Kryddið hentar aftur á móti mjög vel í ýmiss konar farsblöndur og hakkrétti.

Fer vel með: chili, pipar, kúmeni, allrahanda, kardimommum, túrmeriki, saffrani, engifer, hvítlauk, rósmaríni, timjani, óreganó, steinselju.

Pipar

Algengasta krydd í heimi og ætti ekki að þurfa að fjölyrða um notkun þess í lambakjötsrétti. Hvít og svört piparkorn eru algengust (reyndar sömu berin en þau svörtu eru tínd og þurrkuð óþroskuð og eru með hýði, en þau hvítu eru látin þroskast og síðan afhýdd áður en þau eru þurrkuð). Einnig eru til græn og rauð piparkorn sem eru yfirleitt ekki þurrkuð heldur sett í salt- eða edikslög. Passa skal að pipar brennur við 150°C og er því betra að pipra eftir steikingu.

Fer vel með: flestum krydd- og kryddjurtategundum.

Rósapipar

Mild piparkorn (reyndar óskyld venjulegum pipar) sem má t.d. nota í sósur með steiktu eða grilluðu lambakjöti.

Fer vel með: mintu, steinselju, pipar, fennikufræi, sítrónugrasi.

Saffran

Dýrasta krydd í heimi. Saffran-þræðirnir eru þurrkaðir fræflar úr saffran-krókus og þarf að handtína þá. Það er notað til að krydda ýmsa lambakjötsrétti við Miðjarðarhafið og allt austur til Indlands, ekki síst hrísgrjónarétti. Ef eingöngu er verið að sækjast eftir gula litnum en ekki bragðinu má oft nota túrmerik í staðinn.

Fer vel með: papriku, pipar, engifer, kardimommum, kanil, múskati, anís, fennikufræi.

Sesamfræ

Notuð í ýmsa arabíska og austurlenska lambakjötsrétti, oftast léttristuð, eða þá möluð í kryddblöndum og sósum.

Fer vel með: kóríanderfræi, timjan, steinselju, einiberjum, hvítlauk.

Sítrónugras

Stönglar hitabeltisjurtar sem eru mikið notaðir sem krydd í Suðaustur-Asíu, meðal annars í suma lambakjötsrétti, bæði súpur, kássur og pottrétti. Best er að nota ferskt sítrónugras og saxa það smátt eða mauka það.

Fer vel með: chili, kóríanderlaufi, hvítlauk, engifer, túrmeriki, stjörnuanís.

Stjörnuanís

Ilmríkt krydd með lakkrískeim sem er mikið notað á Indlandi og allt til Norður-Afríku þar sem það er algengt í lambakjötsréttum. Heill stjörnuanís er viðarkennt, stjörnulaga aldin og hver hinna átta arma stjörnunnar inniheldur fræ, sem er hið eiginlega krydd. Bragðið er anískennt. Kryddið er mikið notað í víetnamskri og kínverskri matargerð og á vel við í mörgum austurlenskum lambakjötsréttum.

Fer vel með: chili, kanil, fennikufræi, kóríander, hvítlauk, engifer, sítrónugrasi, sojasósu.

Súmak

Möluð ber af súmaktrénu, mikið notuð í líbanskri og arabískri matargerð. Bragðið er súrt og því gjarnan stráð á kjöt þegar búið er að grilla eða steikja, einnig í pottrétti, ídýfur og fleira. Á mjög vel við lambakjöt og hakkbollur úr lambakjöti.

Fer vel með: chili, paprikudufti, hvítlauk, timjani, steinselju, mintu, kóríander, kummini, sesamfræi, allrahanda.

Tamarind

Súrsætt austurlenskt mauk eða kvoða, unnin úr aldinum tamarindtrésins, sem notað er til að krydda ýmsa indverska og asíska lambakjötsrétti, marineringar og sósur. Það er líka notað í ýmsar tilbúnar kryddsósur, svo sem Worcestersósu.

Fer vel með: chili, hvítlauk, engifer, túrmeriki, sojasósu, kummini, kóríanderlaufi.

Túrmerik

Möluð rót jurtar af engiferætt. Kryddið er heiðgult að lit og gefur gulum karríkryddblöndum lit. Túmerik er sjaldan notað eitt sér en er mjög algengt í kryddblöndum, allt frá Suðaustur-Asíu til Norður-Afríku. Það er notað í marga lambakjötspottrétti, kássur og sósur.

Fer vel með: chili, paprikudufti, pipar, kummini, kóríander, hvítlauk, engifer, fennikufræi, sítrónugrasi.