Villibráðarkryddaður kindalærvöðvi

Innanlærvöðvi er góður biti sem auðvelt er að matreiða og kjöt af fullorðnu er ekki síður gott en lambakjöt, raunar bragðmeira og að dómi margra betra. En auðvitað má líka nota lambakjöt í þennan rétt.

Pottur og diskur

Hráefni

 1 kg kindainnralærvöðvi (u.þ.b. 3 bitar)
 3 dl rauðvín
 2 msk. rauðvínsedik
 1 msk. balsamedik
 1 msk. villijurtir frá Pottagöldrum (nota má aðrar villtar kryddjurtir eftir smekk)
 1 laukur, saxaður
 1 gulrót, skorin í þunnar sneiðar
 0.25 tsk. engifer
 negull á hnífsoddi
 kanill á hnífsoddi
 nýmalaður pipar
 salt
 hveiti
 2 msk olía til steikingar

Leiðbeiningar

1

Setjið kjötið í skál. Blandið saman rauðvíni, rauðvínsediki, balsamediki, kryddjurtum, lauk, gulrót, engifer, kanil, negul og pipar og hellið yfir. Látið standa í kæli yfir nótt og snúið bitunum tvisvar eða þrisvar. Hitið ofninn í 225°C. Takið kjötið úr leginum og þerrið það lauslega með eldhúspappír. Saltið það og veltið því upp úr hveiti. Hitið olíuna á pönnu og snöggbrúnið bitana við háan hita. Setjið þá svo í eldfast fat, setjið í ofninn og steikið í 25-30 mínútur án þess að lækka hitann; ef það á að vera gegnsteikt má steikja það nokkru lengur og breiða þá e.t.v. álpappír yfir ef kjötið virðist ætla að dökkna of mikið. Látið kjötið standa í u.þ.b. 10 mínútur áður en það er skorið í sneiðar og borið fram. Á meðan má búa til sósu úr kryddleginum (sjá uppskrift að rauðvínssósu).

Deila uppskrift