Veltisteikt lambakjöt

Veltisteiking eða "stir-fry" er steikingaraðferð ættuð frá Asíu, þar sem það sem á að steikja er skorið í litla bita, snöggsteikt við mjög háan hita og hrært nærri stöðugt í á meðan til að snúa bitunum. Þessi aðferð hentar vel fyrir meyrt lambakjöt.

Pottur og diskur

Hráefni

 3 msk olía
 2-3 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt
 500 g lambakjöt, fitulaust, skorið í litlar, þunnar sneiðar
 1 eggaldin, skorið í fremur litla bita
 4 msk vatn
 2 msk nuoc mam (víetnömsk fiskisósa)
 1 msk hrásykur
 1-2 rauð chilialdin, fræhreinsuð og skorin í örþunnar sneiðar
 20-30 mintulauf

Leiðbeiningar

1

Wokpanna hituð, helmingnum af olíunn hellt í hana, hvítlaukurinn settur út í og veltisteikt í 1-2 mínútur.

Þá er kjötið sett út í og veltisteikt þar til allar sneiðarnar hafa brúnast.

Þá er það tekið upp með gataspaða og geymt. Afganginum af olíunni hellt á pönnuna, eggaldinið sett út í og veltisteikt við fremur háan hita í 4-5 mínútur.

Þá er kjötið og hvítlaukurinn aftur sett á pönnuna ásamt vatni, fiskisósu og hrásykri.

Veltisteikt í 2 mínútur í viðbót en síðan hellt á hitað fat og chili og mintulaufi dreift yfir.

Borið fram með hrísgrjónum.

Deila uppskrift