Svarti sauðurinn

Látið ekki litinn fæla ykkur frá þessum gómsæta rétti. Kjötið er brúnað og síðan soðið í svörtu ólífumauki þar til það er meyrt. Þetta er réttur sem allir ólífuvinir ættu að kunna vel að meta. Mjög gott er að hafa kartöflustöppu með kjötinu en einnig mætti skera afhýddar kartöflur í stóra bita og sjóða þær með síðustu 20 mínúturnar eða svo.

Pottur og diskur

Hráefni

 um 1 kg lambaframhryggur eða súpukjöt
 2 msk. hveiti
 nýmalaður pipar
 salt
 1 msk. ólífuolía
 90-100 g svart ólífumauk (tapenade)
 200 ml vatn (meira eftir þörfum)
 nokkrar tímíangreinar eða 0.5 tsk. þurrkað tímían
 1 rósmaríngrein
 e.t.v. 1 tsk. sykur

Leiðbeiningar

1

Fituhreinsið kjötið eftir þörfum og skerið það e.t.v. í minni bita. Veltið því upp úr hveiti blönduðu pipar og salti. Hitið olíuna í þykkbotna potti og brúnið kjötið. Hrærið saman ólífumauk og vatn og hellið yfir. Bætið tímíani og rósmaríni í pottinn, leggið lok yfir og látið malla við mjög hægan hita í um 1 1/2 klst. Snúið bitunum e.t.v. einu sinni eða tvisvar og bætið svolitlu vatni í pottinn ef þarf en vökvinn á ekki að vera mikill og það á ekki að fljóta yfir bitana. Smakkið sósuna, bragðbætið hana e.t.v. með sykri, og berið kjötið síðan fram með kartöflustöppu.

Deila uppskrift