Suðurafrískur lambapottréttur

Gómsætur, pottréttur, ættaður frá Suður-Afríku, þar sem sætt og kryddað bragð af kartöflum og framandlegu kryddi blandast skemmtilega saman við bragðið af lambakjötinu.

Pottur og diskur

Hráefni

 1 kg súpukjöt
 2 laukar
 1 milt chili-aldin
 3 msk. olía
 nýmalaður pipar
 salt
 1 msk. hrásykur eða púðursykur
 250 ml vatn
 600-800 g sætar kartöflur
 2 rauðar paprikur
 2 sm bútur af engifer, rifinn eða saxaður smátt
 2 tsk. garam masala

Leiðbeiningar

1

Fituhreinsið kjötið að hluta, skiptið því í minni bita og fjarlægið e.t.v. beinin. Skerið laukinn í bita. Fræhreinsið chili-aldinið og saxið það smátt. Hitið olíuna í potti og látið laukinn krauma í henni við meðalhita í 6-8 mínútur, eða þar til hann er meyr. Hækkið þá hitann, setjið kjötið í pottinn og látið krauma áfram þar til það hefur tekið lit; hrærið öðru hverju á meðan til að snúa kjötinu. Bætið chili-aldininu í pottinn, hrærið pipar, salti og sykri saman við og hellið síðan vatninu yfir. Leggið lok yfir og látið malla við hægan hita í um 1 klst. Flysjið á meðan sætu kartöflurnar og skerið þær í stóra bita. Fræhreinsið paprikurnar og skerið þær í bita. Setjið kartöflu- og paprikubitana í pottinn, ásamt engifer, og látið malla áfram í lokuðum potti í um hálftíma, eða þar til kartöflurnar eru meyrar. Hrærið þá garam masala saman við og berið fram, t.d. með kúskúsi.

Deila uppskrift