Steikt lifur með beikoni

Lifur og beikon er klassísk samsetning og í þessari ensku uppskrift er líka kryddað með hvítlauk og worcestersósu.

Pottur og diskur

Hráefni

 600 g lambalifur
 100 g beikon í sneiðum
 2 msk hveiti
 nýmalaður pipar
 salt
 1 msk smjör
 1 msk olía
 1 hvítlauksgeiri, saxaður smátt
 1 msk worcestersósa

Leiðbeiningar

1

Lifrin hreinsuð og skorin í þunnar sneiðar á ská; best er að sneiðarnar séu vel innan við 1 cm á þykkt. Þykkbotna panna hituð og beikonið steikt þar til það er stökkt en þá er það tekið af pönnunni og látið renna af því á eldhúspappír. Beikonfeitinni hellt af pönnunni en smjör og olía hitað í staðinn. Lifrarsneiðunum velt upp úr hveiti krydduðu með pipar og salti og þær síðan steiktar við háan hita í 1-2 mínútur á hvorri hlið. Hvítlauk og worcestersósu bætt á pönnuna og steikt í 1 mínútu í viðbót en síðan eru beikonsneiðarnar settar ofan á og borið fram, t.d. með soðnum kartöflum.

Deila uppskrift