Steikt fíflablöð

Mörgum finnst kannski ótrúlegt að hægt sé að nýta eitthvað fíflana, sem vaxa eins og illgresi í görðum og túnum. Blöðin eru vissulega beisk á bragðið en ef þau eru tínd þegar þau eru ung og nýsprottin má vel borða þau, annaðhvort hrá í salötum eða jafnvel steikt, eins og hér:

Pottur og diskur

Hráefni

 500 g ung fíflablöð (einnig má nota spínat)
 100 g feitt beikon, skorið í litla bita
 1 hvítlauksgeiri, saxaður smátt
 nýmalaður pipar
 1.5 dl soð eða vatn

Leiðbeiningar

1

Veljið aðeins ung og fremur ljós blöð; þau gömlu eru of beisk. Hreinsið þau og þvoið vel og þerrið þau á eldhúspappír eða diskaþurrku. Steikið beikonið við meðalhita á stórri pönnu þar til fitan er farin að bráðna vel úr því. Setjið þá fíflablöðin á pönnuna ásamt hvítlauknum og dálitlum pipar, veltið þeim upp úr feitinni og steikið í 1-2 mínútur. Hellið soði eða vatni yfir, setjið lok á pönnuna eða breiðið álpappír yfir, og látið malla við vægan hita í 3-5 mínútur. Berið fram með kjötinu.

Deila uppskrift