Spænsk asadar-lambabógsteik

Á Spáni er notaður bógur í þennan rétt og þykir best að það sé vinstri bógurinn af lambinu; kjötið er sagt vera meyrara af því að sauðfé sofi á vinstri hliðinni. Þar í landi er kjötið hægsteikt í viðarkyntum ofni og vatni ausið oft yfir það á meðan. Það má að sjálfsögðu nota læri í stað bógsins.

Pottur og diskur

Hráefni

 1 stór bógur, úrbeinaður
 6 hvítlauksgeirar, saxaðir
 1 msk rósmarín, ferskt (eða 1 tsk þurrkað), saxað
 1 tsk marjoram, þurrkað
 4 msk ólífuolía
 nýmalaður pipar
 salt
 3 laukar, skornir í sneiðar
 3 lárviðarlauf
 vatn eftir þörfum

Leiðbeiningar

1

Ofninn hitaður í 120 gráður. Kjötið fitusnyrt. Rósmaríni, marjoram, 2 msk af olíu, pipar og salti blandað saman og kjötið núið með blöndunni. Afgangurinn af olíunni hitaður á pönnu (enn betra er þó að hita olíuna í steikarfatinu eða ofnskúffunni), lauk og lárviðarlaufi dreift í hana, kryddað með pipar og salti og látið krauma í um 5 mínútur. Þá er 1 bolla af vatni hellt yfir og síðan er öllu saman hvolft yfir í steikarfat. Kjötið lagt ofan á, lok sett yfir (eða álpappír breiddur yfir) og sett í ofninn. Bakað í um 5 klst. Kjötinu snúið á um klukkutíma fresti og vatni bætt við eftir þörfum. Þegar kjötið er tilbúið er það tekið upp, sett á fat og skorið í sneiðar. Soðið smakkað til og borið fram með.

Deila uppskrift