Skosk kjötsúpa

Hefðbundin skosk kjötsúpa er að sumu leyti býsna svipuð hinni íslensku en þessi hér inniheldur meðal annars sveskjur og blaðlauk.

Pottur og diskur

Hráefni

 6-700 g lambaframhryggjarsneiðar
 nýmalaður pipar
 salt
 2 msk olía
 2 laukar, saxaðir
 2 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt
 300 g gulrætur, skornar í bita
 100 g bygggrjón
 2 lárviðarlauf
 2 l vatn
 1 blaðlaukur (hvíti og ljósgræni hlutinn), skorinn í sneiðar
 12 sveskjur, steinlausar
 150 g hvítkál, skorið í mjóar ræmur

Leiðbeiningar

1

Kjötið kryddað með pipar og salti. Olían hituð á pönnu og kjötið brúnað vel á báðum hliðum en síðan tekið af pönnunni og sett í pott. Laukurinn og hvítlaukurinn settur á pönnuna og látinn krauma við meðalhita þar til laukurinn er mjúkur. Hellt yfir kjötið og síðan er gulrótum, byggi, lárviðarlaufi og vatni bætt í pottinn, hitað að suðu og látið malla í um hálftíma. Blaðlauk og sveskjum bætt út í og soðið í um hálftíma í viðbót. Þá er kálið sett í pottinn og soðið í 4-5 mínútur. Súpan smökkuð til með pipar og salti. Best er að búa súpuna til daginn áður en bera á hana fram og hita hana svo upp, en þá er kálið ekki sett út í fyrr en síðari daginn.

Deila uppskrift