Sinnepsgljáð lambalæri

Hér kemur mjög einföld en afar gómsæt uppskrift að ofnsteiktu lambalæri, þar sem lærinu er komið fyrir á kartöflubeði og það síðan steikt við jafnan hita. Uppskriftina má gera enn einfaldari með því að sleppa gljáanum alveg og láta nægja að krydda lærið með pipar, salti og rósmaríni.

Pottur og diskur

Hráefni

 1 lambalæri, um 2.5 kg
 nýmalaður pipar
 salt (gjarna Maldon-salt)
 2 msk. olía
 1 kg kartöflur, helst rauðar, meðalstórar
 nokkrar rósmaríngreinar
 3 msk. dijon-sinnep
 2 msk. hunang

Leiðbeiningar

1

Ofninn hitaður í 200°C. Lærið kryddað vel með pipar og salti. Olíunni hellt í steikarfat (best að það sé ekki mjög stórt), kartöflurnar settar í fatið og velt upp úr olíunni. Kryddað með pipar og salti. 2-3 rósmaríngreinar lagðar ofan á og síðan er lærið lagt ofan á rósmaríngreinarnar. Sett í ofninn og steikt í um 1 klst. Sinnepi, hunangi og 2 msk. af söxuðu rósmaríni hrært saman, smurt á lærið og steikt í 20-30 mínútur í viðbót. Lærið látið standa í a.m.k. 15 mínútur eftir að það er tekið úr ofninum. Borið fram með kartöflunum og e.t.v. með sinneps- eða hvítlaukssósu.

Deila uppskrift