Sérrínýru frá Púertó Ríkó

Lambanýru þykja víða um heim hið mesta sælgæti. Þessi einfaldi nýrnaréttur er frá Púertó Ríkó en rætur hans liggja þó á Spáni, þar sem nýru eru einmitt gjarnan soðin í sérrísósu.

Pottur og diskur

Hráefni

 600 g lambanýru
 safi úr 1 sítrónu
 2 msk. maísmjöl eða hveiti
 nýmalaður pipar
 salt
 75 g smjör
 0.5 laukur, saxaður smátt
 blöð af 1 rósmaríngrein (má sleppa)
 nokkrar tímíangreinar
 0.5 dl þurrt sérrí

Leiðbeiningar

1

Skerið nýrun í sundur í miðju, hreinsið þau og dragið af þeim himnuna. Setjið þau í skál, kreistið safann úr sítrónunni yfir og bætið svo við köldu vatni, svo miklu að fljóti yfir nýrun. Látið standa í um 15 mínútur en takið nýrun þá upp úr og látið renna vel af þeim á eldhúspappír. Blandið saman maísmjöli, pipar og salti og veltið nýrunum upp úr blöndunni. Bræðið smjörið á pönnu og látið laukinn krauma í því þar til hann er glær. Bætið þá nýrunum á pönnuna ásamt tímíani og steikið í 2-3 mínútur á hvorri hlið. Hellið sérríinu yfir, hitið að suðu og látið sjóða í um 2 mínútur. Bragðbætið með pipar og salti ef þarf og berið fram heitt, t.d. með soðnum hrísgrjónum.

Deila uppskrift