Saltkjöts-fiskibollur

Buff eða bollur úr hökkuðu saltkjöti og ferskum fiski eru gamall íslenskur réttur sem sést sjaldan nú orðið. Nota má ýmsar tegundir fiska en sagt er að ufsi sé bestur. Einnig er hægt að nota afgang af soðnum eða steiktum fiski en þá verða buffin heldur þurrari.

Pottur og diskur

Hráefni

 300 g soðið saltkjöt, beinhreinsað
 300 g ýsa, roðflett og beinlaus
 2-3 laukar
 1 bolli brauðmylsna
 1 bolli mjólk
 0.5 tsk nýmalaður pipar
 2-3 msk söxuð steinselja (má sleppa)
 75 g smjörlíki eða olía

Leiðbeiningar

1

Kjötið, fiskurinn og einn laukurinn skorið í bita og hakkað saman í hakkavél. Sett í skál og brauðmylsnu, lauk, pipar og steinselju hrært saman við. Mótað í 8 buff, um 1 cm þykk. Smjörlíkið hitað á stórri pönnu og buffin steikt við meðalhita í um 5 mínútur á annarri hlið. Á meðan er laukurinn sem eftir er helmingaður og skorinn í þunnar sneiðar. Buffunum er svo snúið og lauknum bætt á pönnuna á milli buffanna. Steikt í 5 mínútur í viðbót en þá eru buffin tekin upp með gataspaða og sett á fat. Laukurinn steiktur áfram í 2-3 mínútur en síðan dreift yfir. Borið fram t.d. með kartöflusalati eða soðnum kartöflum.

Deila uppskrift