Salat með bökuðum tómötum

Þetta gómsæta salat á mjög vel við með alls konar steiktu og grilluðu lambakjöti. Best er að nota vel þroskaða tómata. Þeir verða sérlega bragðmiklir og góðir þegar þeir hafa verið bakaðir þar til þeir eru farnir að brúnast og jafnvel brenna örlítið.

Pottur og diskur

Hráefni

 8-10 tómatar
 1 tsk kummin (cumin)
 1 tsk sykur
 nýmalaður pipar
 salt
 6 msk ólífuolía
 1 poki salatblanda, t.d. klettasalatsblanda
 parmesanostur (biti)

Leiðbeiningar

1

Ofninn hitaður í 220°C. Tómatarnir skornir í helminga og raðað í eldfast fat með skurðflötinn upp. Kryddaðir með kummini, sykri, pipar og salti. Settir í ofninn og bakaðir í um 45 mínútur. Þá er olíunni dreypt jafnt yfir þá og þeir bakaðir í 10-15 mínútur í viðbót. Látnir kólna þar til þeir eru volgir. Salatblandan sett í skál eða á fat, tómötunum blandað saman við og olíunni úr mótinu hellt yfir. Nokkrar flögur skornar af parmesanosti og dreift yfir.

Deila uppskrift