Pottréttur úr lambahjörtum

Gómsætur pottréttur úr lambahjörtum sem eru brúnuð með beikoni og síðan soðin með víni, kryddjurtum og grænmeti.

Pottur og diskur

Hráefni

 1 kg lambahjörtu
 100 g beikon í sneiðum
 1 lárviðarlauf
 0.5 tsk timjan, þurrkað
 0.5 tsk basilíka, þurrkuð
 nýmalaður pipar
 300 ml kjötsoð eða vatn
 200 ml rauðvín (eða meira soð)
 25 g smjör
 2-3 gulrætur, skornar í litla bita
 200 g perlulaukur, afhýddur
 250 g sveppir
 300 g strengjabaunir
 3-4 msk söxuð steinselja

Leiðbeiningar

1

Hjörtun fituhreinsuð og himnudregin og æðar skornar burt. Síðan eru þau skorin í litla bita (1-1½ cm á kant). Beikonsneiðarnar skornar í litla bita og steiktar í þykkbotna potti þar til fitan er runnin en síðan tekið upp með gataspaða. Hjörtun sett í pottinn og steikt í beikonfeitinni þar til þau eru vel brúnuð. Þá er beikonið sett aftur út í ásamt lárviðarlaufi, timjani, basilíku og pipar. Soði og víni hellt yfir og hitað að suðu. Hitinn lækkaður og látið malla við vægan hita í um 1½ klst. Fylgjast þarf með þegar líða tekur á suðutímann og bæta við soði eða vatni ef uppgufun verður of mikil. Smjörið brætt á pönnu og gulrætur, perlulaukur og sveppir látin krauma í því í nokkrar mínútur en síðan hellt í pottinn og hrært. Látið malla í 10-15 mínútur í viðbót. Strengjabaununum bætt út í, hitað að suðu og látið sjóða í nokkrar mínútur í viðbót, eða þar til baunirnar eru meyrar. Lárviðarlaufið fjarlægt. Hellt í skál og steinselju stráð yfir. Borið fram t.d. með tagliatelle eða hrísgrjónum.

Deila uppskrift