Polenta með sólþurrkuðum tómötum

Polenta er eins konar grautur úr maísmjöli sem er mjög algengt meðlæti með mat á Norður-Ítalíu og þar gjarna notuð á svipaðan hátt og við notum hrísgrjón eða kartöflur. Hefðbundin polenta þarf um hálftíma suðu en hér er notuð skyndiútgáfa sem þarf aðeins að sjóða í nokkrar mínútur. Einnig má nota hefðbundin polentugrjón og sjóða þau samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum en bragðbæta svo polentuna eins og hér er gert.

Pottur og diskur

Hráefni

 250 ml skyndi-polenta
 700 ml vatn, eða eftir þörfum
 10 sólþurrkaðir tómatar í olíu
 2-3 msk olía af tómötunum
 1 tsk ítölsk kryddblanda (Italian seasoning)
 nýmalaður pipar
 salt

Leiðbeiningar

1

Polentugrjón og kalt vatn sett í pott, hitað að suðu og hrært oft á meðan. Tómatarnir skornir í bita og settir út í ásamt olíu, kryddjurtum, pipar og salti. Látið malla við hægan hita í 3-5 mínútur og hrært nærri stöðugt. Grauturinn á að vera þykkur en þó ekki þykkari en svo að vel sé hægt að hræra í honum (hann þykknar þegar hann kólnar). Polentan er svo smökkuð til með pipar og salti og sett á miðjuna á fati sem e.t.v. er búið að skreyta með klettasalati eða öðrum salatblöðum. Borið fram t.d. með steiktum lambalærissneiðum eða kótelettum.

Deila uppskrift