Patinkin-lambagrillsteik

Þessi einfalda uppskrift er upprunnin hjá bandaríska kvikmyndaleikaranum Mandy Patinkin og er hér tekin úr matreiðslubók móður hans, Doralee Patinkin.

Pottur og diskur

Hráefni

 1 lambalæri
 5-6 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt
 100 ml sojasósa
 3 msk þunnt hunang

Leiðbeiningar

1

Lærið úrbeinað og skorið í þykkasta vöðvann og honum flett í sundur, þannig að svipuð þykkt verði á öllu kjötstykkinu. Það er svo pikkað vel með beittum hnífsoddi á báðum hliðum – sérstaklega þó að utan – og hvítlauknum stráð á það. Sett í plastpoka. Sojasósa og hunang hrært saman, hellt yfir og lærinu velt fram og aftur til að lögurinn þeki það. Pokanum er svo lokað, hann lagður í fat og látinn standa í kæli í um hálfan sólarhring; snúið tvisvar eða þrisvar. Grillið í ofninum hitað. Kjötstykkið sett á grind sem höfð er yfir ofnskúffu og grillað í 10-12 mínútur á hvorri hlið. Þá er slökkt á grillinu en ofninn stilltur á 200 gráður og kjötið látið vera í honum í 5-10 mínútur í viðbót (fer eftir þykkt og hvað það á að vera mikið steikt). Tekið út og látið bíða nokkra stund áður en það er skorið í sneiðar á ská.
Þessa steik má líka matreiða á útigrilli en þá er best að fylgjast vel með kjötinu og snúa því oft.

Deila uppskrift