Osso buco lambaleggir

Að réttu lagi ætti að nota kálfaskanka í osso buco en hérlendis eru þó oftast notaðir nautaskankar. Það má líka elda lambaleggi á sama hátt, brúna þá og sjóða síðan með tómötum, kryddjurtum, lauk og fleiru þar til þeir eru alveg meyrir.

Pottur og diskur

Hráefni

 2 kg lambaleggir (skankar)
 2 tsk. þurrkað tímían
 2 tsk. þurrkað óreganó
 nýmalaður pipar
 salt
 2 msk. olía
 2 laukar, saxaðir gróft
 150 g beikon, skorið í bita
 2-3 gulrætur, skornar í 1 sm sneiðar
 3-4 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt
 safi úr 1 sítrónu
 1 dós saxaðir tómatar
 2 lárviðarlauf
 5 dl vatn
 1 msk. ferskt eða 1 tsk. þurrkað rósmarín
 sósujafnari

Leiðbeiningar

1

Best er að láta saga leggina í tvær sneiðar hvern en ef þeir eru frekar litlir mega þeir þó vel vera heilir. Kryddið þá vel með tímían, óreganó, pipar og salti. Hitið ofninn í 160°C. Hitið olíuna í víðum potti eða á stórri pönnu með loki og brúnið kjötið vel við góðan hita. Takið það svo upp og setjið á disk. Setjið lauk og beikon á pönnuna (bætið við svolítilli olíu ef þarf) og steikið í nokkrar mínútur. Bætið þá gulrótum og hvítlauk á pönnuna og steikið í 2-3 mínútur í viðbót. Kreistið sítrónusafa yfir, hrærið tómötum, lárviðarlaufi og rósmaríni saman við ásamt vatni og kryddið með pipar og salti. Hitið að suðu, setjið kjötið út í, leggið lok yfir og setjið pottinn í ofninn, eða hellið öllu saman í stórt, eldfast fat, breiðið álpappír þétt yfir og setjið í ofninn. Steikið í um 2 klst, eða þar til kjötið er mjög vel meyrt; snúið e.t.v. bitunum einu sinni eða tvisvar. Setjið pottinn svo aftur á eldavélarhellu, takið kjötið upp úr og setjið á disk, þykkið sósuna dálítið með sósujafnara (hafið hana þó frekar þunna) og setjið svo kjötið aftur úr í og berið fram.

Rétturinn er ekki síðri ef hann er eldaður daginn áður. Þá er hann kældur þegar hann er tekinn úr ofninum og þegar á að bera hann fram er kjötið hitað alveg í gegn í sósunni áður en hún er þykkt.

Deila uppskrift