Ofnbakaðar lærissneiðar í lauksósu

Einfaldur og ódýr lambakjötsréttur, þar sem aðalkryddið er lauksúpuduft úr pakka. Kjötið er brúnað og svo steikt í ofni með lauk og hvítlauk.

Pottur og diskur

Hráefni

 800 g lærissneiðar (2. fl.)
 4 msk lauksúpuduft
 2 tsk timjan, þurrkað
 nýmalaður pipar
 2 msk olía
 2 laukar, skornir í sneiðar
 2 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt
 300 ml vatn

Leiðbeiningar

1

Ofninn hitaður í 180 gráður. Kjötið e.t.v. fitusnyrt að einhverju leyti og síðan velt upp úr lauksúpudufti blönduðu timjani og pipar. Olían hituð á pönnu og kjötið brúnað á báðum hliðum en síðan sett í eldfast fat. Laukurinn og hvítlaukurinn settur á pönnuna og látinn krauma þar til hann er meyr. Dreift í kringum kjötið og afganginum af lauksúpuduftinu, ef einhver er, stráð yfir. Vatnið hitað að suðu og hellt í fatið. Sett í ofninn og bakað í um 45 mínútur, eða þar til kjötið er alveg meyrt. Borið fram t.d. með kartöflustöppu.

Deila uppskrift

Þessi vefsíða notar vafrakökur til að bæta upplifun þína. Með því að halda áfram samþykkir þú stefnu okkar um vafrakökur.​