Norður-afrískar kartöflur

Óvenjulegt meðlæti sem hentar mjög vel með grilluðu lambakjöti, krydduðu að norður-afrískum eða arabískum hætti. Sleppa má sætu kartöflunum og nota meira af kartöflum og gulrótum í staðinni.

Pottur og diskur

Hráefni

 2 msk ólífuolía
 400 g kartöflur, afhýddar og skornar í stauta
 250 g sætar kartöflur, afhýddar og skornar í stauta
 100 g gulrætur, skafnar og skornar í frekar þunnar sneiðar
 1 hvítlauksgeiri, skorinn í bita eða saxaður smátt
 1 lárviðarlauf
 nokkrar timjangreinar, eða 0.25 tsk þurrkað timjan
 10 þurrkaðar apríkósur, skornar í fjórðunga
 0.25 tsk pipar
 0.25 tsk salt
 0.25 tsk kanell
 0.25 tsk kummin, steytt
 chilipipar á hnífsoddi

Leiðbeiningar

1

Olían hituð í stórum, þykkbotna potti eða pönnu, gjarna húðaðri. Þegar hún er vel heit eru kartöflur, sætar kartöflur, gulrófur og hvítlaukur sett út í ásamt lárviðarlaufi og timjani. Hitinn fljótlega lækkaður og steikt við meðalhita í um 8 mínútur; hrært oft á meðan. Síðan er apríkósunum og kryddinu bætt á pönnuna, hrært vel og steikt áfram þar til grænmetið er meyrt. Hrært oft, svo að steikingin verði sem jöfnust og ekki brenni við.

Deila uppskrift