Norður-afrísk kjötsúpa með baunum

Í þessa bragðmiklu lambakjötssúpu, sem ættuð er frá Marokkó, eru notaðar tvenns konar baunir. Kjúklingabaunirnar halda lögun en linsubaunirnar ættu að soðna í mauk. Súpan er ekki sérlega mikið krydduð en það má vel hafa hana sterkari og bæta t.d. dálitlum chilipipar út í hana.

Pottur og diskur

Hráefni

 175 g kjúklingabaunir
 1 kg lambakjöt (súpukjöt eða framhryggur)
 1 msk. olía
 1 laukur, saxaður
 2-3 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt
 1 tsk. túrmerik
 1 tsk. engifer (duft)
 0.5 tsk. kanill
 nýmalaður pipar
 salt
 2 dósir saxaðir tómatar
 150 g rauðar linsubaunir
 1 l vatn
 e.t.v. steinselja til skreytingar

Leiðbeiningar

1

Leggið kjúklingabaunirnar í bleyti yfir nótt. Hellið svo af þeim vatninu, skolið þær vel og látið renna af þeim. Takið lambakjötið af beinunum, fituhreinsið það að hluta og skerið það svo í munnbitastóra teninga. Hitið olíuna í potti og brúnið kjötið vel í 2-3 skömmtum. Takið það upp með gataspaða og setjið á disk. Setjið lauk og hvítlauk í pottinn (bætið e.t.v. við svolítilli olíu ef þarf) og steikið við meðalhita í nokkrar mínútur. Hrærið túrmeriki, engifer, kanil, pipar og salti saman við og setjið svo kjötið aftur í pottinn, ásamt tómötum, kjúklingabaunum, linsubaunum og vatni. Hitið að suðu og látið malla í um 1 1/2 klst, eða þar til kjötið er vel meyrt og súpan þykk. Bætið við svolítið meira vatni ef hún er of þykk. Smakkið og bragðbætið eftir þörfum, skreytið e.t.v. með saxaðri steinselju og berið fram.

Deila uppskrift