Marokkóskur lambapottur
Sleppa má apríkósunum og tómötunum og nota eingöngu sveskjur, og þá ívið meira en hér er gert. Þá er líka gott að bæta dálitlu hunangi út í og nota appelsínusafa í staðinn fyrir sítrónusafann.
- 4
Hráefni
Leiðbeiningar
Ofninn hitaður í 180 gráður. Kjötið beinhreinsað, fituhreinsað að mestu, og skorið í bita. Kanel, engifer, kummini, pipar og salti blandað saman, sett í plastpoka ásamt kjötinu og velt fram og aftur. Olían hituð í stórum, þykkbotna potti og kjötið brúnað vel við góðan hita. Á meðan er soðið hitað í öðrum potti. Laukur og hvítlaukur settur út í, hitinn lækkaður og steikt í 2-3 mínútur í viðbót. Þá er sveskjunum hrært saman við ásamt tómötunum og heitu soðinu. Hrært, hitað að suðu, pottinum lokað og látið malla við hægan hita í um 1 klst. Hrísgrjónin sett út í, hrært og látið malla í hálftíma til viðbótar; meira soði eða vatni bætt við eftir þörfum. Þegar grjónin eru vel meyr er börkurinn rifinn af sítrónunni og safinn kreistur úr henni og hrært saman við ásamt saxaðri mintu og síðan smakkað til með pipar og salti. Borið fram með harissa (norður-afrísku chilimauki).