Léttsteiktar lambalundir með myntubættu ertumauki og baunum

Lambakjöt er ljúft og á alltaf við og ekki síst núna þegar hitastigið fer lækkandi og fallegu haustlitirnir koma fram til að vitna um dýrðlegt og gjöfult sumarið. Þessi uppskrift er úr haustblaði Gestgjafans 2012 í umsjón Úlfars Friðbjörnssonar matreiðslumeistara.

Pottur og diskur

Hráefni

 800 g lambalundir, sinalausar
 salt og nýmalaður pipar
 3 msk. olía
 1 laukur, smátt saxaður
 2 msk. sykur
 fínt rifinn börkur af 2 sítrónum
 1 dl steinselja, smátt söxuð
 2 dl lambasoð eða vatn og lambakraftursósujafnari
 1-2 msk. sítrónusafi
 40 g kalt smjör í teningum

Leiðbeiningar

1

Kryddið lambalundir með salti og pipar og steikið upp úr olíu á vel heitri pönnu í 3-4 mín.

Snúið lundunum reglulega þannig að þær verði jafnbrúnaðar á öllum hliðum. Takið lundirnar af pönnunni og haldið heitum. bætið lauk og sykri á pönnuna og látið krauma í 30 sekúndur.

Setjið sítrónubörk, steinselju og lambasoð saman við og látið sjóða í 2-3 mín. Þykkið sósuna með sósujafnara og bragðbætið með salti, pipar og sítrónusafa. Takið pönnuna af hellunni, bætið smjöri saman við og hrærið í með sleif þar til smjörið er bráðnað, eftir það má sósan ekki sjóða.

Berið lundirnar fram með sósunni, ertumauki og t.d. baunum og steiktum kartöflum.

2

Myntubætt ertumauk:

3

300 g frosnar grænar ertur, þiðnar
1 laukur, smátt saxaður
saltvatn
40 g smjör
1 tsk. sítrónusafi
2 msk. mynta, smátt söxuð
nýmalaður pipar

Setjið ertur í pott ásamt lauk, salti og vatni þannig að rétt fljóti yfir og sjóðið í 7 mín.

Sigtið helminginn af vatninu frá og hellið restinni úr pottinum í matvinnsluvél.

Maukið allt vel saman ásamt smjöri, sítrónusafa, myntu, salti og pipar. Merjið í gegnum fínt sigti.

4
Uppskriftin er úr Gestgjafanum. Umsjón: Úlfar Finnbjörnsson Myndir: Karl Petersson

Deila uppskrift