Langtímaeldaðir lambaskankar með kryddjurtum í mysusósu

Sunnudagshryggur og helgarlamb eru orð sem við grípum gjarnan til þegar við ætlum að lýsa eldamennsku frídaganna. Stundum erum við í stuði fyrir nýjungar og stundum langar okkur bara í lambakjöt eins og mamma eða amma gerðu. Minningarnar streyma fram og stemningin í eldhúsinu verður einstaklega heimilisleg og kósí. Hérna er ein frábær úr Gestgjafanum.

Pottur og diskur

Hráefni

 4 stórir lambaskankar
 salt og nýmalaður pipar
 2 laukar, skrældir og skornir í báta
 4 dl mysa eða 3 dl hvítvín
 2 lárviðarlauf
 4-6 greinar tímían eða 1 tsk. þurrkað
 4-6 rósmaríngreinar eða 1 tsk. þurrkað
 4 hvítlauksgeirar
 2-3 dl vatn
 1 msk. lambakraftur
 sósujafnari
 40 g kalt smjör í teningum

Leiðbeiningar

1

Hitið ofninn í 190°C.

Saltið lambaskanka og kryddið með pipar og setjið í eldfast mót ásamt laukbátum.

Setjið mótið í ofninn og bakið í 15 mín. eða þar til hæklarnir eru orðnir fallega brúnir. Bætið þá mysu, lárviðarlaufi, rósmaríni og hvítlauk í formið og lækkið hitann í 140°C.

Bakið áfram í 2 klst. eða þar til skankarnir eru orðnir vel mjúkir undir tönn. Sigtið þá vökvann úr ofnskúffunni í pott og bætið við vatni þannig að heildarmagn vökvans í pottinum verði 5 dl.

Þykkið soðið með sósujafnaranum og bragðbætið með lambakrafti, salti og pipar.

Takið pottinn af hellunni og bætið smjöri saman við. Hrærið í þar til smjörið hefur bráðnað.

Hellið þá sósunni yfir skankana og berið fram með blönduðu grænmeti og kartöflum.

2
Uppskriftin er úr Gestgjafanum. Umsjón: Úlfar Finnbjörnsson Myndir: Kristinn Magnússon

Deila uppskrift