Lambatagine með rúsínum og möndlum

Hvers kyns tagine-réttir, og þá ekki síst úr lambakjöti, eru afar algengir í Norður-Afríku. Hér er einn dæmigerður og afar góður réttur af þessu tagi, ættaður frá Tiznit í Marokkó.

Pottur og diskur

Hráefni

 1 kg lambakjöt, t.d. af læri
 2 msk. smjör
 3 msk. olía
 2 laukar, saxaðir
 3 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt
 1 tsk. túrmerik
 0.5 tsk. engiferduft
 0.25 tsk. cayenne-pipar eða harissa-mauk
 nýmalaður pipar
 salt
 1 dós saxaðir tómatar
 2.5 dl vatn
 2 dl rúsínur
 2 msk. söxuð steinselja
 1 msk. söxuð kóríanderlauf
 50 g möndlur, heilar

Leiðbeiningar

1

Skerið lambakjötið í bita, helst 3-4 sm á kant. Setjið smjör og 1 msk. af olíu í pott og setjið svo kjötið, laukinn og hvítlaukinn út í og kryddið með túrmeriki, engifer, cayenne-pipar, pipar og salti. Hrærið til að dreifa kryddinu jafnt. Hellið tómötunum yfir ásamt vökvanum úr dósinni, bætið vatni í pottinn, hitið að suðu, leggið lok yfir og látið malla við vægan hita í 1 klst. Hrærið öðru hverju og bætið við svolitlu vatni ef uppgufun er mikil. Bætið svo rúsínum og söxuðum kryddjurtum í pottinn og látið malla í um hálftíma í viðbót, eða þar til kjötið er mjög meyrt og sósan orðin þykk. Hitið 2 msk. af olíu á pönnu og steikið möndlurnar þar til þær eru gullinbrúnar á báðum hliðum. Takið þær upp með gataspaða og látið renna af þeim á eldhúspappír. Dreifið þeim yfir kjötið rétt áður en það er borið fram.

Deila uppskrift