Lambasteik með íslenskum villisveppum

Lambakjöt er ljúft og á alltaf við og ekki síst núna þegar hitastigið fer lækkandi og fallegu haustlitirnir koma fram til að vitna um dýrðlegt og gjöfult sumarið. Þessi uppskrift er úr haustblaði Gestgjafans 2012 í umsjón Úlfars Friðbjörnssonar matreiðslumeistara.

Pottur og diskur

Hráefni

 800 g lambainnralæri
 3 msk. olíasalt og nýmalaður pipar
 3 msk. olía
 300 g villisveppir, skornir í báta, t.d. furusveppir, lerkisveppir, kúalubbar eða kóngssveppir
 2-3 hvítlauksgeirar, smátt saxaðir
 1 dl steinselja, smátt söxuð
 2 dl hvítvín
 50 g kalt smjör í teningum

Leiðbeiningar

1

Skerið lambainnralæri í 3 cm þykkar steikur og bankið þær með buffhamri þar til þær eru 2 cm þykkar.

Kryddið steikurnar með salti og pipar og steikið upp úr olíu á vel heitri pönnu í 2 mín. á hvorri hlið. Takið á steikurnar af pönnunni og haldið heitum. bætið 3 msk. af olíu á sömu pönnu og steikið sveppi í 2 mín.

Bætið hvítlauk, steinselju og hvítvíni á pönnuna og sjóðið vínið niður um ¾.

Takið pönnuna af hellunni og bætið smjöri saman við. Hrærið í með sleif þar til smjörið er bráðnað, eftir það má sósan ekki sjóða. berið steikurnar fram með sveppasósunni og t.d. steiktum kartöflum og grænmeti.

2
Uppskriftin er úr Gestgjafanum. Umsjón: Úlfar Finnbjörnsson Myndir: Karl Petersson

Deila uppskrift