Lambasoð II

Þegar lambakjöt er keypt á beini en síðan úrbeinað áður en það er matreitt, eins og gert er í öllum uppskriftunum á þessari opnu, er engin ástæða til að henda beinunum, því að af þeim má sjóða kraftmikið og gott soð sem nota má í súpur, sósur og pottrétti. Ef það sem til fellur hverju sinni er svo lítið að varla tekur því að búa til soð er tilvalið að frysta beinin og safna saman og búa svo til stóran skammt af soði. Soðið má nota strax, kæla það og geyma í ísskáp í nokkra daga, eða frysta það í hæfilegum skömmtum og nota þegar þörf er á.

Pottur og diskur

Hráefni

 500 g lambabein og afskurður
 2 l vatn
 2 msk. olía
 1 laukur
 1 sellerístöngull
 2 gulrætur
 2 lárviðarlauf
 0.5 tsk. þurrkað tímían
 nýmalaður pipar
 salt

Leiðbeiningar

1

Hitið olíuna í potti og brúnið beinin vel. Hellið svo vatni yfir, látið suðuna koma upp og fleytið froðu ofan af. Skerið laukinn í bita (óþarfi að afhýða hann) en selleríið og gulræturnar í sneiðar og setjið í pottinn ásamt lárviðarlaufi og tímíani. Kryddið með pipar og salti og látið sjóða við meðalhita í a.m.k. eina klukkustund og gjarna lengur. Síið svo soðið og mælið það.

Deila uppskrift