Lambaskankar með paprikuhettu

Skemmtileg en svolítið fyrirhafnarsöm aðferð við að elda lambaskanka - þeir eru klæddir í paprikuhatta og síðan vafðir í álpappír áður en þeir eru bakaðir.

Pottur og diskur

Hráefni

 4 vænir lambaskankar
 4 paprikur, gjarna mismunandi litar
 75 g beikon, skorið í bita
 3 hvítlauksgeirar, saxaðir
 1 msk fersk rósmarínblöð, eða 1 tsk þurrkað rósmarín
 nýmalaður pipar
 salt
 2 msk olía
 125 ml þurrt hvítvín (eða vatn og svolítill sítrónusafi)
 1 laukur, saxaður

Leiðbeiningar

1

Lambaskankarnir e.t.v. fitusnyrtir. Grillið í ofninum hitað og paprikurnar grillaðar þar til þær eru meyrar og hýðið farið að verða svart; snúið öðru hverju á meðan. Þær eru svo teknar út, stilkurinn fjarlægður og sem mest af fræjum með, og svo er botninn skorinn af þeim. Ofninn hitaður í 160 gráður. Á meðan paprikurnar grillast er beikon, hvítlaukur og rósmarín sett í matvinnsluvél eða blandara og saxað í mauk. Beittum hnífsoddi stungið í skankana á nokkrum stöðum og blöndunni núið inn í rifurnar. Kryddað með pipar og salti. Olían hituð á pönnu og skankarnir brúnaðir á öllum hliðum. Teknir af pönnunni en víni eða vatni hellt á hana, látið sjóða ögn niður og pönnubotninn skafinn vel á meðan. Fjórum álpappírsbútum, 25-30 cm á kant, raðað á vinnuborð og lauknum skipt á bútana. Soðinu af pönnunni hellt yfir og síðan er einn skanki settur á hvern bút og leggjarbeinið látið vita upp. Papriku smeygt upp á hvern skanka þannig að beinið standi út um gatið eftir stilkinn og álpappírinn brotinn utan um þannig að beinið eitt standi út úr pappírnum. Bögglarnir settir í eldfast fat og bakaðir í um 2 klst. Borið fram t.d. með kúskús eða soðnum hrísgrjónum.

Deila uppskrift