Lambapottur með kartöfluþekju

Þessi alþekkti lambapottréttur er ættaður frá Lancashire-héraði á Englandi. Best er að láta hann malla lengi í ofninum en reyndar má einnig elda hann í potti á eldavélinni.

Pottur og diskur

Hráefni

 1 kg lambaframhryggur í sneiðum
 hveiti
 nýmalaður pipar
 salt
 3 msk. ólífuolía
 3-4 gulrætur, skornar í 1 sm sneiðar
 2-3 laukar, saxaðir
 300 ml sjóðandi vatn
 2 msk. worchestershire-sósa
 250 g sveppir, skornir í þykkar sneiðar
 500 g kartöflur, flysjaðar og skornar í þykkar sneiðar

Leiðbeiningar

1

Hitið ofninn í 200°C. Fituhreinsið kjötið e.t.v. eitthvað. Skerið kjötsneiðarnar í 2-3 hluta hverja. Veltið þeim upp úr hveiti krydduðu með pipar og salti. Hitið 2 msk. af olíunni á þykkbotna pönnu og brúnið kjötið vel á báðum hliðum við góðan hita. Raðið því í eldfast fat. Dreifið gulrótasneiðunum yfir. Setjið laukinn á pönnuna og látið hann krauma við meðalhita þar til hann er meyr. Takið hann þá af pönnunni með gataspaða og dreifið yfir gulræturnar. Bætið 1 msk. af olíu á pönnuna, hrærið 1 msk. af hveiti saman við, hellið vatninu í pottinn smátt og smátt og bakið upp þunna sósu. Hrærið worchestershire-sósu saman við og látið malla í nokkrar mínútur. Raðið sveppunum ofan á gulræturnar og laukinn, hellið sósunni jafnt yfir og raðið að lokum kartöflusneiðum yfir allt saman. Leggið lok eða álpappírsörk yfir fatið og setjið í ofninn í um 1 klst. Takið þá lokið eða álpappírinn af og bakið áfram þar til kartöflusneiðarnar eru gullinbrúnar.

Deila uppskrift