Lambapottur frá Navarra

Navarra er hérað á Norður-Spáni og þar er töluvert borðað af lamba- og kindakjöti. Þessi réttur er nokkuð dæmigerður fyrir matreiðsluna á svæðinu.

Pottur og diskur

Hráefni

 1.2 kg lambaframhryggur
 nýmalaður pipar
 salt
 3 msk ólífuolía
 2 bufflaukar, saxaðir (eða 4-5 venjulegir laukar)
 1-2 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt
 6 tómatar, vel þroskaðir, saxaðir (eða 1 dós niðursoðnir)
 2 rauðar paprikur, fræhreinsaðar og skornar í bita
 0.5 rautt chilialdin, fræhreinsað og saxað smátt
 1 tsk paprikuduft
 2-3 msk söxuð steinselja (má sleppa)
 1 lárviðarlauf

Leiðbeiningar

1

Kjötið beinhreinsað, skorið í bita og kryddað með pipar og salti. Olían hituð í stórum, þykkbotna potti og kjötið brúnað vel á öllum hliðum. Tekið úr pottinum með gataspaða og fært á disk. Laukurinn steiktur við meðalhita þar til hann er glær og mjúkur. Hvítlauknum bætt út í og steikt í 1 mínútu. Þá er tómötum, paprikum og chilialdini bætt út í og síðan paprikudufti, steinselju og lárviðarlaufi. Látið malla í um 5 mínútur og síðan smakkað til með pipar og salti. Kjötið sett aftur í pottinn, lok látið á hann og kjötið látið malla undir loki við mjög hægan hita í um klukkustund. Hrært af og til, en ekki ætti að þurfa að bæta neinum vökva í pottinn. Þegar kjötið er meyrt er sósan smökkuð til og kjötið borið fram.

Deila uppskrift

Þessi vefsíða notar vafrakökur til að bæta upplifun þína. Með því að halda áfram samþykkir þú stefnu okkar um vafrakökur.​