Lambapottur frá Navarra

Navarra er hérað á Norður-Spáni og þar er töluvert borðað af lamba- og kindakjöti. Þessi réttur er nokkuð dæmigerður fyrir matreiðsluna á svæðinu.

Pottur og diskur

Hráefni

 1.2 kg lambaframhryggur
 nýmalaður pipar
 salt
 3 msk ólífuolía
 2 bufflaukar, saxaðir (eða 4-5 venjulegir laukar)
 1-2 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt
 6 tómatar, vel þroskaðir, saxaðir (eða 1 dós niðursoðnir)
 2 rauðar paprikur, fræhreinsaðar og skornar í bita
 0.5 rautt chilialdin, fræhreinsað og saxað smátt
 1 tsk paprikuduft
 2-3 msk söxuð steinselja (má sleppa)
 1 lárviðarlauf

Leiðbeiningar

1

Kjötið beinhreinsað, skorið í bita og kryddað með pipar og salti. Olían hituð í stórum, þykkbotna potti og kjötið brúnað vel á öllum hliðum. Tekið úr pottinum með gataspaða og fært á disk. Laukurinn steiktur við meðalhita þar til hann er glær og mjúkur. Hvítlauknum bætt út í og steikt í 1 mínútu. Þá er tómötum, paprikum og chilialdini bætt út í og síðan paprikudufti, steinselju og lárviðarlaufi. Látið malla í um 5 mínútur og síðan smakkað til með pipar og salti. Kjötið sett aftur í pottinn, lok látið á hann og kjötið látið malla undir loki við mjög hægan hita í um klukkustund. Hrært af og til, en ekki ætti að þurfa að bæta neinum vökva í pottinn. Þegar kjötið er meyrt er sósan smökkuð til og kjötið borið fram.

Deila uppskrift