Lambapottréttur með fenniku og kjúklingabaunum

Sneiðar af lambaframhrygg eru einkar bragðgott og frekar meyrt kjöt sem hentar vel til steikingar og grillsteikingar en þó ekki síður í súpur og pottrétti, til dæmis þennan spænskættaða pottrétt.

Pottur og diskur

Hráefni

 1 kg lambakjöt, t.d. framhryggjarsneiðar
 2 msk. olía
 1 laukur, saxaður
 2-3 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt
 1 fennika, fremur stór, eða 2 minni
 2 rósmaríngreinar, eða 1 tsk. þurrkað rósmarín
 nýmalaður pipar
 salt
 0.5 l vatn
 16-20 grænar ólífur
 1 dós kjúklingabaunir (eða 250 g soðnar baunir)
 sósujafnari
 sítrónusafi, nýkreistur

Leiðbeiningar

1

Takið kjötið af beinunum (frystið e.t.v. beinin til að nota í soð seinna) og fitusnyrtið það dálítið ef þarf. Hitið olíuna á pönnu eða í víðum potti og látið laukinn og hvítlaukinn krauma í henni í nokkrar mínútur við meðalhita. Takið hann svo upp með gataspaða, hækkið hitann og brúnið kjötið nokkuð vel. Skerið fennikuna í 1 sm þykkar sneiðar (eftir endilöngu þannig að hún hangi saman á rótinni) og setjið hana í pottinn ásamt rósmaríni og lauk. Kryddið með pipar og salti og hellið vatninu yfir. Hitið að suðu, leggið lok yfir og látið malla við hægan hita í um 40 mínútur. Setjið þá ólífurnar út í ásamt kjúklingabaununum og látið malla í 10-15 mínútur í viðbót. Þykkið sósuna með sósujafnara og bragðbætið með svolitlum sítrónusafa, pipar og salti. Berið e.t.v. fram með soðnum kartöflum.

Deila uppskrift