Lambalundir á teini með döðlum
Lundirnar eru meyrasti bitinn af öllum skrokknum og þurfa mjög skamma eldun. Þær eru sérlega gómsætar ef þær eru snögggrillaðar við háan hita og það er tilvalið að þræða þær á teina. Fyrir smáréttaborðið setjið lítinn passlegan munnbita og hálfa döðlu á hvern tein.
- 4
Leiðbeiningar
Skerið hverja lund í tvennt eða þrennt eftir endilöngu. Blandið ólífuolíu, söxuðum hvítlauk, villijurtum og pipar saman í skál. Rífið börkinn af sítrónunni yfir. Setjið lundirnar út í, blandið vel, og látið standa við stofuhita í um hálftíma. Hitið grillpönnu mjög vel (einnig má vitaskuld grilla kjötið á vel heitu útigrilli, en grillið í ofninum nær tæpast nægilega háum hita). Skerið döðlurnar í tvennt og fjarlægið steinana. Þræðið lundirnar upp á tréteina, tvær ræmur á hvern, og hafið hálfa döðlu á milli og annan döðluhelming á endanum. Saltið kjötið og steikið það síðan við háan hita í um 2 mínútur á hvorri hlið. Berið fram t.d. með klettasalatblöndu, spínati eða öðrum grænum salatblöðum.
Í staðinn fyrir döðlurnar mætti t.d. nota kirsiberjatómata.