Lambalæri með sinneps-steinseljufyllingu

Hér er fyllingin fremur efnislítil og gegnir aðallega því hlutverki að krydda kjötið. 

Pottur og diskur

Hráefni

 
1 lambalæri, um 2,5 kg (einnig má nota hrygg)
 
1 ciabatta-brauð eða rúnnstykki
 
3 hvítlauksgeirar
 
50 g pecorino- eða parmigiano-ostur
 
3-4 msk. steinselja, söxuð
 
2 tsk. dijon-sinnep
 
2 msk. ólífuolía
 
nýmalaður pipar
 
salt

Leiðbeiningar

1

Úrbeinið lambalærið alveg (eða látið gera það í versluninni), flettið því í sundur og skerið e.t.v. í vöðvana þar sem þeir eru þykkastir til að stykkið verði sem jafnast að þykkt og helst sem næst því að vera ferkantað. Rífið brauðið niður og setjið það í matvinnsluvél, ásamt hvítlauknum, ostinum og steinseljunni. Látið vélina ganga þar til brauðið er orðið að mylsnu. Blandið sinnepi, olíu, pipar og salti saman við. Kryddið kjötið með pipar og salti og leggið það á bretti þannig að skurðflöturinn snúi upp. Setjið fyllinguna á miðjuna og vefjið kjötinu í rúllu utan um. Bindið vefjuna saman með seglgarnsspottum eða festið hana með kjötprjónum. Hitið ofninn í 180°C. Setjið vefjuna í eldfast fat eða ofnskúffu og steikið hana í u.þ.b. 1 klst., eða eftir smekk. Takið kjötið út og látið það standa í a.m.k. 10-15 mínútur áður en það er skorið.

Deila uppskrift