Lambalæri með sinneps-kryddjurtaþekju

Lambalæri er alltaf gómsætt, hvort sem það er gamla, góða sunnudagslærið eins og mamma og amma gerðu eða eitthvað nýstárlegra, til dæmis lambalæri með stökkri kryddþekju, steikt þar til það er bleikt í miðju og ótrúlega meyrt og gott.

Pottur og diskur

Hráefni

 1 lambalæri, um 2,2 kg
 nýmalaður pipar
 salt
 3 msk. olía
 2-3 brauðsneiðar eða 1 rúnnstykki, helst gróft
 2-3 hvítlauksgeirar, saxaðir
 3 msk. rifsberjahlaup
 1 msk. dijon-sinnep, helst grófkorna
 1 tsk. tímían, þurrkað
 1/2 tsk. óreganó, þurrkað
 3-4 laukar
 1 kg litlar kartöflur, afhýddar og forsoðnar

Leiðbeiningar

1

Takið lambalærið úr kæli nokkrum klukkustundum áður en það er eldað svo að það sé við stofuhita þegar það er sett í ofninn. Kryddið það með pipar og salti. Hitið ofninn í 220°C. Hitið 1 msk. af olíu á stórri pönnu eða í eldföstu fati sem þolir að fara á eldavélarhellu og brúnið lærið á öllum hliðum. (Ef engin panna er nógu stór og ekkert annað hægt að nota má sleppa því að brúna lærið en það er betra að gera það.) Rífið brauðið í bita og setjið það í matvinnsluvél ásamt hvítlauk, rifsberjahlaupi, sinnepi, kryddjurtum og dálitlum pipar og salti. Látið ganga þar til allt er orðið að mauki. Hellið 2 msk. af olíu í ofnskúffuna. Afhýðið laukana, skerið þá í þykkar sneiðar og raðið í miðja ofnskúffuna. Leggið lærið ofan á. Smyrjið kryddmaukinu á það. Setjið lærið í ofninn og steikið það í 20-25 mínútur, eða þar til kryddmaukið er farið að taka góðan lit. Breiðið þá álpappír lauslega yfir lærið. Steikið áfram við sama hita í 45 mínútur til 1 klst., eftir því hve mikið kjötið á að vera steikt. Dreifið kartöflunum í kringum lærið um 25 mínútum fyrir lok steikingartímans og snúið þeim einu sinni eða tvisvar á meðan þær eru í ofninum. Einnig má steikja þær einar sér í ofninum eftir að lærið er tekið út. Látið lærið standa á hlýjum stað í a.m.k. 25 mínútur eftir að það er tekið út og breiðið álpappír yfir. Berið það fram með kartöflunum, sósunni og e.t.v. öðru grænmeti.

2

Steikarsósa með lambakjötinu:
soðið úr ofnskúffunni
100 ml rauðvín (einnig má nota vatn)
250 ml vatn
nýmalaður pipar
salt
e.t.v. rifsberjahlaup
sósujafnari

3

Fjarlægið kjötið og kartöflurnar (ef þær eru steiktar með því) en skiljið laukinn eftir. Hellið víninu í heita ofnskúffuna og skafið hana með spaða til að losa um skófir. Hellið öllu saman í pott, hitið að suðu og látið sjóða rösklega í nokkrar mínútur. Bætið vatninu út í, ásamt pipar og salti, og sjóðið áfram smástund. Hellið soðinu gegnum sigti, setjið það aftur í pottinn, smakkið og bragðbætið ef þarf með pipar, salti og e.t.v. svolitlu rifsberjahlaupi. Þykkið sósuna svolítið með sósujafnara en hún á að vera þunn.

Deila uppskrift