Lambalæri með sinnepi og rósmaríni

Gómsætt lambalæri sem er úrbeinað og ,,flatt"" eða ,,butterflied"" eins og það kallast á ensku, þ.e. þegar búið er að úrbeina lærið er skorið í þykkustu vöðvana og þeim flett í sundur þannig að þykktin á kjötstykkinu verði alls staðar sem jöfnust. Þannig grillast lærið jafnt og grilltíminn verður stuttur.

Pottur og diskur

Hráefni

 1 lambalæri, um 2.2 kg
 3 msk. dijon-sinnep
 2 msk. ólífuolía
 2-3 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt
 2 msk. ferskt rósmarín, saxað
 1 tsk. óreganó, þurrkað
 nýmalaður pipar
 salt

Leiðbeiningar

1

Úrbeinið lærið og skerið 1-2 skurði í vöðvana þar sem þeir eru þykkastir til að stykkið verði sem jafnast að þykkt. Blandið öllu hinu saman í skál og smyrjið blöndunni á lærið; notið mun meira af henni á skurðflötinn en á pöruna. Setjið kjötið í eldfast fat, breiðið plast yfir og látið það standa í kæli í a.m.k. 2 klst. Hitið grillið og hafið það lokað á meðan. Slökkvið síðan á öðrum/einum brennaranum. Ef notað er kolagrill, ýtið þá kolunum til hliðar í miðjunni og setjið álbakka þar. Leggið kjötið á grillristina, þeim megin sem enginn eldur er, og látið pöruna snúa niður. Lokið og grillið við meðalhita í 25-35 mínútur, eftir smekk og aðstæðum (gott að skera í kjötið til að athuga hvort það er hæfilega steikt). Látið kjötið standa nokkra stund áður en það er skorið. Berið fram t.d. með grilluðum kartöflum og grænmeti.

Deila uppskrift