Lambalæri með kryddjurtum

Hér er lærið úrbeinað áður en það er lagt í kryddlög með kryddjurtum og fleiru og síðan grillað á útigrilli. Gott er að hafa með því bakaðar eða grillaðar kartöflur.

Pottur og diskur

Hráefni

 1 lambalæri, 2.5-3 kg
 5 msk ólífuolía
 5 msk nýkreistur sítrónusafi
 5 msk sjerrí eða púrtvín
 3 vorlaukar, saxaðir smátt
 1 hvítlauksgeiri, saxaður smátt
 1 msk fersk rósmarínlauf, söxuð smátt
 1 msk oregano, ferskt, eða 1 tsk þurrkað
 nýmalaður pipar
 salt

Leiðbeiningar

1

Lærið úrbeinað og skorið í þykkasta vöðvann og honum flett í sundur, þannig að svipuð þykkt verði á öllu kjötstykkinu. Olía, sítrónusafi, sjerrí, vorlaukur, hvítlaukur, oregano, rósmarín og pipar sett í skál og hrært vel saman. Kjötið sett á stórt fat eða í ofnskúffu og kryddleginum hellt yfir. Plast breitt yfir og látið standa í kæli í a.m.k. 6 klst og gjarna yfir nótt. Snúið öðru hverju. Kjötið er svo tekið úr kryddleginum og þerrað lauslega en hann geymdur. Grillið hitað. Kjötið sett á grillið og grillað við meðalhita í 35-45 mínútur. Snúið öðru hverju og penslað með kryddleginum. Látið standa í um 10 mínútur eftir að það er tilbúið og á meðan er kryddlögurinn settur í pott, soðinn í nokkrar mínútur, smakkaður til og borinn fram sem sósa með kjötinu.

Deila uppskrift

Þessi vefsíða notar vafrakökur til að bæta upplifun þína. Með því að halda áfram samþykkir þú stefnu okkar um vafrakökur.​