Lambalæri með kryddjurtum

Hér er lærið úrbeinað áður en það er lagt í kryddlög með kryddjurtum og fleiru og síðan grillað á útigrilli. Gott er að hafa með því bakaðar eða grillaðar kartöflur.

Pottur og diskur

Hráefni

 1 lambalæri, 2.5-3 kg
 5 msk ólífuolía
 5 msk nýkreistur sítrónusafi
 5 msk sjerrí eða púrtvín
 3 vorlaukar, saxaðir smátt
 1 hvítlauksgeiri, saxaður smátt
 1 msk fersk rósmarínlauf, söxuð smátt
 1 msk oregano, ferskt, eða 1 tsk þurrkað
 nýmalaður pipar
 salt

Leiðbeiningar

1

Lærið úrbeinað og skorið í þykkasta vöðvann og honum flett í sundur, þannig að svipuð þykkt verði á öllu kjötstykkinu. Olía, sítrónusafi, sjerrí, vorlaukur, hvítlaukur, oregano, rósmarín og pipar sett í skál og hrært vel saman. Kjötið sett á stórt fat eða í ofnskúffu og kryddleginum hellt yfir. Plast breitt yfir og látið standa í kæli í a.m.k. 6 klst og gjarna yfir nótt. Snúið öðru hverju. Kjötið er svo tekið úr kryddleginum og þerrað lauslega en hann geymdur. Grillið hitað. Kjötið sett á grillið og grillað við meðalhita í 35-45 mínútur. Snúið öðru hverju og penslað með kryddleginum. Látið standa í um 10 mínútur eftir að það er tilbúið og á meðan er kryddlögurinn settur í pott, soðinn í nokkrar mínútur, smakkaður til og borinn fram sem sósa með kjötinu.

Deila uppskrift