Lambalæri með ítalskri fyllingu

Úrbeinað lambalæri, fyllt með ítölsku góðgæti - hráskinku, sólþurrkuðum tómötum, hvítlauk og pestó. Hreinasta sælgæti.

Pottur og diskur

Hráefni

 1 lambalæri, fremur lítið
 50 g hráskinka, skorin í ræmur
 6-8 sólþurrkaðir tómatar, saxaðir
 2-3 hvítlauksgeirar, saxaðir
 1 msk pestósósa
 2 tsk ítölsk kryddjurtablanda
 pipar, nýmalaður
 salt
 2 msk olía
 800 ml lambasoð (sjá hér á eftir)
 hveiti eða maísmjöl til þykkingar

Leiðbeiningar

1

Lærið úrbeinað og e.t.v. fitusnyrt að hluta. Skinku, tómötum, hvítlauk, pestósósu, 1 tsk af kryddjurtablöndu og pipar blandað saman í skál, blöndunni dreift á kjötið, það vafið utan um og bundið vel með seglgarni og e.t.v. tyllt með kjötprjónum. Afganginum af kryddjurtablöndunn núið utan á lærið ásamt pipar og salti. Látið liggja við stofuhita í 2 klst. (Á meðan er tilvalið að sjóða soð af beinunum.) Ofninn er svo hitaður í 225 gráður. Olíunni hellt í steikarfat eða ofnskúffu, lærið lagt í hana og sett í ofninn í um 20 mínútur. Þá er helmingnum af soðinu hellt í fatið, hitinn lækkaður í 170 gráður og kjötið steikt áfram í 45-60 mínútur. Soði bætt í skúffuna einu sinni eða tvisvar á steikingartímanum en ekki ausið yfir kjötið. Kjötið er svo tekið út og látið standa í a.m.k. 15 mínútur áður en það er borið fram og á meðan er steikarsoðinu hellt í pott, það hitað að suðu, smakkað til og sósan síðan þykkt með hveitihristingi eða maísmjöli hrærðu út í svolitlu köldu vatni. – Það er líka gott að steikja sveppi í smjöri, hella soðinu svo yfir þá og láta sjóða í nokkrar mínútur en þykkja sósuna síðan.

Deila uppskrift