Lambalæri með furuhnetu- og ávaxtafyllingu
Þessi norðurafríska fylling er nokkuð matarmikil, vel krydduð og ilmrík.
- 6
Hráefni
1 lambalæri, um 2,5 kg
4 msk. furuhnetur
12 þurrkaðar apríkósur
6-8 gráfíkjur
1 ciabatta-brauð eða rúnnstykki
blöð af 1 rósmaríngrein
1/2 tsk. engifer (duft)
1/2 tsk. kanell
nýmalaður pipar
salt
2 msk. ólífuolía
50 g fetaostur
Leiðbeiningar
1
Úrbeinið lærið að hluta en skiljið lærlegginn eftir, þannig að lærið haldi lögun (eða látið gera það í versluninni). Ristið furuhneturnar á þurri pönnu þar til þær eru rétt farnar að taka lit en gætið þess að þær brenni ekki. Skerið apríkósur og gráfíkjur í bita. Rífið brauðið niður og setjið það í matvinnsluvél ásamt rósmaríni, kryddi og olíu. Látið vélina ganga þar til brauðið er orðið að mylsnu. Blandið þá furuhnetum, ávöxtum og fetaosti saman við. Fyllið lærið með blöndunni og lokið með kjötprjónum eða bindið lærið saman með seglgarni (fyllingin þarf ekkert að vera alveg lokuð inni, hún rennur ekkert út). Hitið ofninn í 220°C. Setjið lærið í eldfast fat eða ofnskúffu og steikið það í 15-20 mínútur, eða þar til það er farið að taka góðan lit. Lækkið þá hitann í 160°C og steikið áfram í u.þ.b. 1 klst., eða eftir smekk. Látið lærið standa í a.m.k. 15 mínútur áður en það er borið fram.
2