Lambalæri að hætti Rómverja

Þessi uppskrift er ættuð frá Róm en þar er reyndar líklegt að notað væri heilt smálamb, fremur en lambalæri. Sósuna má þykkja með sósujafnara eða hveitihristingi ef ástæða þykir til en í Róm væri hún höfð þunn.

Pottur og diskur

Hráefni

 1 lambalæri, vænt
 4 msk ólífuolía
 1 heill hvítlaukur
 2-3 msk ferskt rósmarín, saxað
 nýmalaður pipar
 salt
 350 ml þurrt hvítvín
 1 kg kartöflur, helst litlar og nýjar

Leiðbeiningar

1

Ofninn hitaður í 200°C. Lambalærið snyrt og fituhreinsað dálítið og síðan penslað með 2 msk af olíunni. 1 1/2-2 cm skurðir skornir eftir endilöngu lærinu báðum megin. Nokkrir hvítlauksgeirar teknir frá en hinir afhýddir og pressaðir eða settir í matvinnsluvél ásamt rósmarínnálunum. Salti og pipar blandað saman við og síðan er maukinu dreift í raufarnar sem skornar voru í lærið. Það er svo kryddað með meiri pipar og salti. Afgangurinn af olíunni settur í eldfast fat, lærið lagt í það og hvítlaukurinn sem eftir var settur í kring. Sett í ofninn og steikt í um hálftíma, eða þar til lærið hefur tekið góðan lit. Þá er hitinn lækkaður í 170°C, víninu hellt í fatið og kartöflurnar settar í kring. Steikt í um 1 klst til viðbótar, eða eftir smekk. Hrært í kartöflunum öðru hverju. Þegar lærið er tilbúið er það sett á bretti og látið bíða smástund áður en það er skorið. Sett á fat og kartöflunum og hvítlauksgeirunum dreift í kring. Soðinu hellt í sósukönnu og það borið fram með.

Deila uppskrift