Lambalæri að hætti Andalúsíumanna

Þessi uppskrift er ættuð frá Andalúsíu á Spáni og hér er kjötið fyrst marinerað í sérríi, lauk, hvítlauk og sítrónusafa og síðan gufusteikt í kryddleginum að viðbættum bjór og grænmeti. Nota má léttöl í staðinn fyrir áfengan bjór.

Pottur og diskur

Hráefni

 1 lambalæri, meðalstórt
 3 hvítlauksgeirar
 0.5 sítróna
 nýmalaður pipar
 salt
 2 laukar
 3 msk ólífuolía
 100 ml þurrt sérrí, ljóst
 2 paprikur (rauð og græn), fræhreinsaðar og saxaðar
 4-5 tómatar, vel þroskaðir
 1 knippi steinselja
 300 ml bjór

Leiðbeiningar

1

Fituhreinsið lærið e.t.v. svolítið. Stingið djúpar raufar í það á nokkrum stöðum með beittum hnífsoddi og stingið hvítlauksflísum í raufarnar. Kryddið það með pipar og svolitlu salti. Flysjið börkinn af sítrónunni og skerið laukinn í þunnar sneiðar. Dreifið lauksneiðunum og sítrónuberki á botninn á steikarfati, leggið lærið þar ofan á, kreistið sítrónusafa yfir, penslið lærið vel með olíunni og hellið að lokum sérríinu yfir. Leggið lok yfir og látið standa í kæli til næsta dags; snúið nokkrum sinnum (einnig mætti setja allt saman í þéttan plastpoka og loka honum vel. Takið kjötið út nokkru fyrir steikingu og hitið ofninn í 175°C. Fræhreinsið paprikurnar og tómatana og skerið í bita. Dreifið grænmetinu í kringum kjötið, hellið bjórnum yfir, lokið og setjið í ofninn í 1 1/2-2 klst. Takið lokið af síðasta hálftímann eða svo. Látið lærið bíða dálitla stund áður en það er skorið og berið það svo fram með grænmetinu og soðinu.

Deila uppskrift