Lambakótilettur með sveppum og kryddjurtasósu

Lambakótilettur standa alltaf fyrir sínu og þessar eru sérlega einfaldar og góðar, aðeins kryddaðar með mintu, pipar og salti og steiktar við háan hita, helst á grillpönnu eða á útigrilli.

Pottur og diskur

Hráefni

 1 kg lambakótelettur
 1-2 tsk. þurrkuð minta
 nýmalaður pipar
 salt
 olía til að pensla pönnuna
 500 g sveppir, gjarna kastaníusveppir, skornir í tvennt

Leiðbeiningar

1

Best er að kóteletturnar séu nokkuð þykkt sagaðar, helst um 2 sm þykkar. Kryddið þær með mintu og nýmöluðum pipar og látið þær standa smástund. Hitið grillpönnu eða venjulega, þykkbotna pönnu vel og penslið hana með örlítilli olíu. Saltið kóteletturnar, setjið þær á pönnuna og steikið þær við góðan hita í 3-5 mínútur á hvorri hlið, eftir því hvað þær eru þykkar og hvort þær eiga að vera steiktar í gegn. Takið þær svo af pönnunni, setjið þær á hitað fat og breiðið álpappír lauslega yfir. Setjið sveppina á pönnuna, kryddið þá með pipar og salti og steikið þá í nokkrar mínútur við góðan hita. Bætið við svolítilli olíu ef þarf en annars ætti fitan af kótelettunum að duga. Berið kóteletturnar fram með sveppunum og kryddjurtasósu. Gott er að hafa kartöflustöppu með.

2

Kryddjurtasósa:
30 g furuhnetur
1 knippi basilíka
hnefafylli af spínati
100 ml ólífuolía
2 msk. balsamedik
nýmalaður pipar
salt

3

Setjið furuhnetur, basilíku og spínat í matvinnsluvél eða blandara og látið ganga þar til þetta er orðið að mauki. Hellið olíunni saman við smátt og smátt og látið vélina ganga á meðan. Þeytið að lokum balsamedikinu saman við og kryddið með pipar og salti eftir smekk.

Deila uppskrift