Lambakorma með apríkósum

Ekta indverskt lambakorma, kryddað með ilmríku og sterku kryddi og látið malla með tómötum og apríkósum. Réttur fyrir fólk sem vill alvöru indverskt bragð.

Pottur og diskur

Hráefni

 800 g lambakjöt, beinlaust og fituhreinsað
 2 laukar
 4 hvítlauksgeirar
 1 msk engifer, saxaður
 4-6 þurrkuð chilialdin, fræhreinsuð (eða eftir smekk)
 4 msk vatn
 1 msk kóríanderfræ, steytt
 1 tsk kummin (cumin), steytt
 0.5 tsk kanell
 0.5 tsk nýmalaður pipar
 8 kardimommur, steyttar
 negull á hnífsoddi
 nokkir saffranþræðir (má sleppa)
 2 msk olía
 salt
 1 dós niðursoðnir tómatar, saxaðir
 150 g þurrkaðar apríkósur
 1 msk epla- eða hvítvínsedik

Leiðbeiningar

1

Kjötið skorið í fremur stóra bita, 3-4 cm á kant, og sett í skál. Annar laukurinn saxaður og settur í matvinnsluvél eða blandara ásamt hvítlauk, chili og vatni. Vélin látin ganga þar til komið er nokkuð slétt mauk. Þá er kryddinu þeytt saman við. Helmingnum af kryddblöndunni hellt yfir kjötið í skálinni, hrært og látið standa í klukkutíma við stofuhita. Olían hituð á þykkbotna pönnu eða í víðum potti. Hinn laukurinn skorinn í þunnar sneiðar og látinn krauma við meðalhita þar til hann er glær og meyr. Þá er afganginum af kryddblöndunni hellt á pönnuna, hrært stöðugt og látið krauma við meðalhita þar til olían fer að skilja sig frá hinu. Kjötinu bætt á pönnuna, saltað og látið krauma í nokkrar mínútur. Tómötunum hellt yfir ásamt leginum úr dósinni, hrært, lok sett á pönnuna og látið malla við mjög hægan hita í um 1 klst. Hrært öðru hverju og svolitlu vatni bætt út í ef þarf. Að lokum er apríkósunum hrært saman við ásamt edikinu og látið malla í um 15 mínútur í viðbót. Smakkað til, skreytt með kóríanderlaufi og borið fram með soðnum hrísgrjónum eða léttkrydduðu hrísgrjónapílafi.

Deila uppskrift