Lambakjötssalat

Þunnt skornar sneiðar af meyru lambakjöti, snöggsteiktar og bornar fram á beði af góðum salatblöðum - sannkallaður veisluréttur, frábær sem forréttur en gæti svo sem líka verið aðalréttur, ekki síst á hlýjum sumardegi.

Pottur og diskur

Hráefni

 

500 g innlærvöðvi

 4 msk ólífuolía
 nýmalaður pipar
 0.5 dl tómatsafi
 safi úr0.5 sítrónu
 salt
 0.5 eikarlaufssalat, lambhagasalat eða annað áþekkt
 2-3 vorlaukar (eða 1 knippi graslaukur)
 nokkur fersk mintulauf (má sleppa)

Leiðbeiningar

1

Kjötið skorið í þunnar sneiðar, helst ekki þykkari en 6-8 mm. Plastfilma breidd á bretti, sneiðunum raðað á hana, önnur filma lögð yfir og sneiðarnar barðar létt eða pressaðar með kökukefli til að gera þær þynnri. Síðan eru þær penslaðar á báðum hliðum með 2 msk af olíunni, kryddaðar með nýmöluðum pipar og látnar standa í 10-15 mínútur. Grillpanna eða venjuleg, þykkbotna panna hituð vel og kjötið snöggsteikt við háan hita, 1-1 ½ mínútu á hvorri hlið. Tekið af pönnunni og látið standa í nokkrar mínútur. Afgangurinn af olíunni (2 msk) settur í skál og tómatsafa, sítrónusafa, pipar og salti þeytt saman við. Kjötið skorið í ræmur og sett út í sósuna. Salatblöðin rifin niður eða skorin í ræmur, vorlaukurinn saxaður og mintulaufin rifin niður. Blandað saman við kjötið og sósuna og sett í salatskál.

Deila uppskrift