Lambakjötssalat með tómötum og gúrkusósu

Einkar girnilegt lambakjötssalat sem tilvalið er að bera fram sem aðalrétt en getur reyndar einnig verið forréttur fyrir marga eða smáréttur í veislu. Miðað er við að það sé borið fram heitt eða volgt en það má líka bera það fram kalt.

Pottur og diskur

Hráefni

 1 kg tómatar, vel þroskaðir (helst klasa- eða plómutómatar)
 2 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt eða pressaðir
 1 tsk oregano, þurrkað
 nýmalaður pipar
 salt
 4-6 msk ólífuolía (jómfrúarolía)
 10 cm biti af gúrku
 100 g hreint skyr
 1 msk mintulauf, saxað smátt
 0.5 tsk hunang (má sleppa)
 cayennepipar á hnífsoddi
 800 g lambahryggvöðvi (fillet)
 0.5 tsk timjan, þurrkað

Leiðbeiningar

1

Hitið ofninn í 180°C. Skerið tómatana í tvennt, skafið fræin úr þeim og raðið þeim síðan á grind sem höfð er yfir ofnskúffu; látið skurðflötinn snúa upp. Blandið saman söxuðum hvítlauk, oregano, pipar og salti og stráið yfir. Dreypið 1-2 msk af ólífuolíu yfir tómatana og bakið þá í miðjum ofni í 50-60 mínútur, eða þar til þeir eru farnir að brúnast á jöðrum og þorna ögn. Skerið á meðan gúrkuna í mjög litla teninga og hrærið þeim saman við skyr, saxaða mintu, hunang, cayennepipar, pipar og salt. Hrærið 2-3 msk af ólífuolíu saman við, bragðbætið eftir smekk og látið standa í kæli. Takið tómatana út þegar þeir eru tilbúnir og haldið þeim heitum. Hitið 1 msk af olíu á pönnu, kryddið lambakjötið með timjani, pipar og salti og steikið það við góðan hita í 3-4 mínútur á hvorri hlið, eða eftir smekk. Látið það bíða smástund og skerið það síðan í sneiðar á ská. Setjið tómatana á fat, dreifið kjötinu yfir og ausið dálitlu af sósunni þar yfir. Skreytið e.t.v. með mintulaufi og berið afganginn af sósunni fram með.

Deila uppskrift

Þessi vefsíða notar vafrakökur til að bæta upplifun þína. Með því að halda áfram samþykkir þú stefnu okkar um vafrakökur.​