Lambakjötsréttur frá Túnis

Lambakjöts-tagine frá Túnis. Sítrónusneiðarnar gefa ótrúlega mikið bragð þótt þær séu ekki settar út í fyrr en skammt er eftir af eldunartímanum. Uppskriftin miðast við að rétturinn sé eldaður í ofni en auðvitað færi best á að elda hann í tagine (norður-afrískur leirpottur af sérstakri gerð).

Pottur og diskur

Hráefni

 1 kg lamba- eða kindakjöt, beinlaust, t.d. innanlærvöðvi
 1 msk. harissa
 1 tsk. kummin
 1 tsk. salt
 3 dl vatn
 1 laukur
 3-4 tómatar, þroskaðir
 3-4 grænar paprikur
 700 g kartöflur
 2 msk. ólífuolía
 1 sítróna

Leiðbeiningar

1

Hitið ofninn í 160°C. Skerið kjötið í stóra bita og setjið þá í eldfast fat eða pott sem má fara í ofninn. Blandið saman harissa-mauki, kummini, salti og vatni og hellið yfir. Skerið laukinn í sneiðar eða bita og tómatana í þykkar sneiðar. Fræhreinsið paprikurnar og skerið þær í bita. Afhýðið kartöflurnar og skerið þær í 2-4 hluta ef þær eru stórar. Dreifið öllu grænmetinu yfir kjötið, ýrið olíu yfir allt saman, leggið lok yfir og setjið í ofninn í 1 1/2 klst. Skerið þá sítrónuna í þunnar sneiðar og raðið þeim ofan á. Hækkið hitann og steikið kjötið í 10-15 mínútur í viðbót. Berið fram með kúskús.

Deila uppskrift