Lambakjötsréttur frá Lancashire

Lambakjötspottréttur sem margir Bretar líta á sem ,,matinn hennar mömmu" - staðgóður, heimilislegur, matarmikill og bragðgóður réttur sem flestum ætti að falla vel í geð.

Pottur og diskur

Hráefni

 1.2 kg lambakjöt, t.d. framhryggur
 hveiti
 nýmalaður pipar
 salt
 3 msk olía
 750 g kartöflur, afhýddar og skornar í 0.5 cm þykkar sneiðar
 2 laukar, grófsaxaðir
 4-5 gulrætur, skornar í þunnar sneiðar
 2 sellerístönglar, saxaðir
 1 blaðlaukur, skorinn í þunnar sneiðar
 1 msk súpujurtir eða 1 tsk þurrkaðar, blandaðar kryddjurtir
 2 msk bráðið smjör

Leiðbeiningar

1

Kjötið úrbeinað og fituhreinsað að mestu og beinin sett í pott ásamt svo miklu vatni að fljóti vel yfir. Hitað að suðu, froðu fleytt ofan af og látið malla í um hálftíma. Kjötið skorið í fremur litla bita sem velt er upp úr hveiti, blönduðu pipar og salti. Olían hituð í þykkbotna potti og kjötið brúnað vel. Ofninn hitaður í 180 gráður. Helmingurinn af kartöflunum tekinn frá en öllu hinu grænmetinu blandað saman í skál ásamt súpujurtum, pipar og salti, og síðan er grænmetisblöndunni og kjötinu raðað í lög til skiptis í djúpt eldfast fat; grænmeti á að vera í efsta og neðsta laginu. Kartöflusneiðunum sem teknar voru frá raðað yfir þannig að þær skarist. Soðið af beinunum síað og svo miklu af því hellt yfir að það nái rétt að kartöflulaginu en fljóti ekki yfir það. Þétt lok sett á fatið eða álpappír breiddur yfir. Sett í ofn og bakað í um 2 klst. Þá er lokið tekið af, kartöflurnar penslaðar með bræddu smjöri, hitinn hækkaður í 200 gráður og bakað áfram án loks þar til kartöflurnar eru farnar að brúnast. Steinselju stráð yfir og borið fram.

Deila uppskrift