Lambakjötspottréttur með apríkósum og sætum kartöflum

Gómsætur pottréttur sem á rætur að rekja til Norður-Afríku og er því góður með kúskúsi en einnig væri gott að hafa með honum soðin hrísgrjón.

Pottur og diskur

Hráefni

 800 g lambakjöt (t.d. af læri), fituhreinsað og skorið í gúllasbita
 3 msk. hveiti
 nýmalaður pipar
 salt
 4 msk. ólífuolía
 2 laukar, saxaðir
 2-3 sellerístönglar, saxaðir
 2-3 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt
 1 tsk. kóríanderfræ, möluð
 1 tsk. kummin
 1 tsk. engifer
 0.5 tsk. kanell
 0.25 tsk. chili-pipar, eða eftir smekk
 2 lárviðarlauf
 150 g apríkósur
 vatn
 800 g sætar kartöflur, afhýddar og skornar í bita
 söxuð steinselja (má sleppa)

Leiðbeiningar

1

Veltið kjötinu upp úr hveiti, blönduðu með pipar og salti (gott að setja allt saman í plastpoka og hrista). Hitið olíuna í þykkbotna potti og brúnið kjötbitana vel á öllum hliðum við góðan hita; best er að brúna þá í nokkrum skömmtum, nema potturinn sé þeim mun stærri. Takið þá svo upp og geymið. Lækkið hitann svolítið, setjið lauk, sellerí og hvítlauk í pottinn og látið krauma í um 5 mínútur. Hrærið þá kryddinu saman við og látið krauma í 2-3 mínútur í viðbót. Setjið kjötið aftur í pottinn, bætið við lárviðarlaufi og apríkósum, ásamt svo miklu vatni að tæplega fljóti yfir. Hitið að suðu og látið malla við hægan hita undir loki í um 40 mínútur. Bætið þá sætu kartöflunum út í og látið malla í um 20 mínútur í viðbót. Smakkið sósuna og bragðbætið eftir þörfum; ef hún er mjög þunn má taka lokið af síðustu mínúturnar og hækka hitann til að sjóða hana niður. Skreytið e.t.v. með saxaðri steinselju.

Deila uppskrift

Þessi vefsíða notar vafrakökur til að bæta upplifun þína. Með því að halda áfram samþykkir þú stefnu okkar um vafrakökur.​